Forviða yfir ákvörðuninni

Juan Jesus fagnar marki í leik með Napoli.
Juan Jesus fagnar marki í leik með Napoli. AFP/Isabella Bonotto

Forráðamenn ítalska knattspyrnufélagsins Napoli furða sig á ákvörðun íþróttadómara að gera ítalska varnarmanninum Francesco Acerbi hjá Inter ekki refsingu fyrir meint kynþáttaníð í garð brasilíska varnarmannsins Juans Jesus, sem leikur með Napoli.

Jesus sakaði Acerbi um kynþáttaníð á meðan leik liðanna í ítölsku A-deildinni stóð fyrr í mánuðinum. Lét Jesus dómara leiksins vita og sagði eftir leik að Acerbi hafi beðið sig afsökunar fyrir ummæli sín á meðan leiknum stóð.

Taka ekki framar þátt í herferðum

Málið var tekið fyrir af íþróttadómstóli en vísað frá af dómara, sem bar við skorti á sönnunargögnum.

„Við erum forviða yfir þessu. Þegar litið er til þess hversu miklar líkur eru á að eitthvað hafi gerst, sem er undirstöðuatriði þegar kemur að því að leita réttar síns innan íþrótta og virðist sannarlega tilfellið í þessu máli miðað við afsökunarbeiðnina á vellinum, hverfur þetta undirstöðuatriði einfaldlega með þessum úrskurði.

Napoli mun héðan af ekki taka þátt í neinum herferðum gegn kynþáttaníði og mismunun á vegum fótboltayfirvalda enda eru þær innantómar en við munum halda áfram að skipuleggja slíkar sjálf, líkt og við höfum ávallt gert, með enn meiri sannfæringu og staðfestu en áður,“ sagði meðal annars í tilkynningu frá Napoli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert