Íslendingarnir tryggðu þrjú dýrmæt stig

Sævar Atli Magnússon var með mark og stoðsendingu í kvöld.
Sævar Atli Magnússon var með mark og stoðsendingu í kvöld. Ljósmynd/Lyngby

Andri Lucas Guðjohnsen og Sævar Atli Magnússon tryggðu Lyngby gríðarlega mikilvægan útisigur á OB, 2:1, í dönsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þegar liðin mættust í Óðinsvéum í kvöld.

OB komst yfir á 13. mínútu leiksins en á 22. mínútu lagði Sævar Atli upp jöfnunarmark fyrir Andra Lucas, og níu mínútum síðar skoraði Sævar markið sem reyndist síðan vera sigurmark leiksins.

Með sigrinum er Lyngby komið sex stigum frá fallsæti, þar sem OB situr, en liðin hefðu verið jöfn með sigri OB. Nú er Lyngby með 32 stig, Vejle 27, OB 26 og Hvidovre 18 stig í fjórum neðstu sætunum þegar liðin eiga eftir þrjá til fjóra leiki.

Sævari var skipt af velli í hálfleik en hann fékk gula spjaldið skömmu fyrir hlé, og Andra var skipt af velli í uppbótartíma. Kolbeinn Birgir Finnsson lék allan leikinn með Lyngby.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert