EM í badminton: Sigur á Eistum

Tinna Helgadóttir og Ragna Ingólfsdóttir tryggðu íslenskan sigur gegn Eistum.
Tinna Helgadóttir og Ragna Ingólfsdóttir tryggðu íslenskan sigur gegn Eistum. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslendingar báru sigurorð af Eistum, 3:2, í A-deild Evrópumótsins í badminton í Herning í Danmörku í morgun. Síðar í dag mæta Íslendingar liði Finna um 13. sætið á mótinu en það sæti tryggir áframhaldandi veru í A-deildinni.

Ragna Ingólfsdóttir og Tinna Helgadóttir tryggðu íslenska sigur í oddalotu en þær lögðu stöllur sínar, 21:14, 20:22 og 21:18.

Í tvenndarleiknum höfðu Ragna og Helgi Jóhannesson betur í viðureign sinni, 21:19 og 21:11 og Helgi og Magnús Ingi Helgason fóru með sigur af hólmi í tvíleiðaleiknum, 21:17 og 21:12.

Sara Jónsdóttir tapaði viðureign sinni, 21:17, 8:21 og 9:21 og Atli Jóhannesson tapaði í einliðaleik sínum, 8:21 og 9:21.

Það er þó ljóst að róðurinn verður erfiður því Finnar eru mun sterkari á pappírunum. Ísland hefur fimmtán sinnum leikið landsleik gegn Finnum í badminton en aðeins fjórum sinnum sigrað. Síðasti sigur Íslands gegn Finnlandi var árið 1988. Ef heimslistastaða leikmanna er skoðuð standa Finnar einnig töluvert betur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert