Pistorius gæti keppt á ólympíuleikum

Oscar Pistorius.
Oscar Pistorius. Reuters

Alþjóða íþróttadómstóllinn hefur úrskurðað, að suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius geti keppt á ólympíuleikum nái hann tilsettu lágmarki. Pistorius missti báða fæturna á unga aldri en notar gervifætur frá Össuri og hefur náð miklum árangri á hlaupabrautinni.

Alþjóða frjálsíþróttasambandið hafði áður úrskurðað að Pistorius geti ekki keppt um sæti á ólympíuleikunum  á þeirri forsendu, að gervifæturnir, sem hann notar, gefi honum forskot á aðra íþróttamenn. Niðurstaða áfrýjunardómstólsins var hins vegar einróma. 

„Eins og þið getið ímyndað ykkur hef ég átt erfitt með að fela brosið síðasta hálftímann," sagði Pistorius við blaðamenn í Mílanó á Ítalíu í dag. „Ég hef fengið tækifæri til að reyna að láta draum minn um þátttöku á ólympíuleikum rætast, ef ekki í Peking þá árið 2012."

Pistorius þarf að ná tilsettu lágmarki ætli hann að fá keppnisrétt í 400 metra hlaupi í Peking. Hann er hins vegar gjaldgengur í boðhlaupssveit Suður-Afríku. 

Pistorius, sem er 21 árs, fæddist án sperrileggja og foreldrar hans létu taka báða fætur af honum fyrir neðan hné áður en hann varð eins árs enda væri það líklegra til að hann gæti lifað eðlilegu lífi. Hann notar koltrefjafæturna Cheetah   frá Össuri þegar hann hleypur. Pistorius kom hingað til lands á síðasta ári og vakti þá talsverða athygli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert