Óttast að Pistorius geti valdið meiðslum á öðrum

Oscar Pistorius á fullri ferð á gullmóti IAAF í Róm …
Oscar Pistorius á fullri ferð á gullmóti IAAF í Róm nýlega. Reuters

Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, óttast, að suður-afríski hlauparinn Oscar Pistorius geti valdið meiðslum á öðrum keppendum, komist hann á Ólympíuleikana í Peking í sumar. Pistorius er fótalaus og notar gervifætur frá stoðtækjaframleiðandanum Össuri.

Alþjóðaíþróttamáladómstóllinn komst í vor að þeirri niðurstöðu, að Pistorius ætti rétt á að taka þátt á Ólympíuleikunum og keppa við fullfríska hlaupara nái hann settu lágmarki. En Pierre Weiss, framkvæmdastjóri IAAF, segist óttast um öryggi annarra keppenda ef Pistorius tekur m.a. þátt í 4x400 metra boðhlaupi á Ólympíuleiknum. Detti hann í troðningi gæti hann slasað aðra keppendur en gervifæturnir eru einskonar fjaðrir úr koltrefjum. 

Pistorius, sem er 21 árs gamall, hefur ekki enn náð lágmarki til að keppa í 400 metra hlaupi í Peking. Til þess þarf hann að hlaupa vegalengdina á 45,55 sekúndum. Hann mun gera tilraun til þess í Luzern á morgun. 

Pistorius gæti hins vegar hugsanlega hlaupið í liði Suður-Afríku í boðhlaupinu en Weiss segist vona, að af því verði ekki af öryggisástæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert