Herminator hættur

Hermann Maier grét á blaðamannafundinum þegar hann tilkynnti ákvörðun sína.
Hermann Maier grét á blaðamannafundinum þegar hann tilkynnti ákvörðun sína. Reuters

Með tárin í augum greindi austurríski skíðakappinn Hermann Maier frá því á fréttamannafundi í dag að hann ákveðið að leggja skíðin á hilluna. Maier, sem er 36 ára gamall, er einn sigursælasti skíðamaður heims.

Maier vann á ferli sínum 54 sigra í heimsbikarkeppninni og fjórum sinnum stóð hann uppi sem heimsbikarmeistari í samanlögðum greinum. Fyrsta heimsbikarsigurinn vann hann í febrúar 1997 en þann síðasta í risasvigi í nóvember á síðasta ári.

Einn af hápunktunum á ferli hans var á vetrarólympíuleikunum í Nagano árið 1998 þar sem hann varð ólympíumeistari bæði í risasvigi og stórsvigi. Þá vann þrenn gullverðlaun á HM, það síðasta í Bormio á Ítalíu árið 2005.

Í ágúst 2001 lenti Maier í alvarlegu mótorhjólaslysi og á tímabili leit út fyrir að fjarlægja þyrfti annan fót hans en það þótti kraftaverki líkast þegar hann mætti til leiks aftur í janúar 2003 og þremur vikum síðar vann hann heimsbikarsigur í risasvigi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert