Hæsta stökkið í 19 ár - Gay fljótastur

Bohdan Bondarenko svífur yfir 2,41 metra og bætir sinn besta …
Bohdan Bondarenko svífur yfir 2,41 metra og bætir sinn besta árangur um heila fimm sentímetra. AFP

Úkraínski hástökkvarinn Bohdan Bondarenko stal senunni á Demantamótinu í Lausanne í Sviss í kvöld er hann lyfti sér yfir 2,41 metra en það er hæsta stökk nokkurs manns í 19 ár.

Bondarenko vann greinina örugglega og reyndi við 20 ára gamalt heimsmet Kúbumannsins Javiers Sotomayors en felldi þrívegis.

Mikill uppgangur virðist í hástökki karla þessa dagana en Katarmaðurinn ungi, Mutaz Essa Barshim, var fyrsti maðurinn í 13 ár til að stökkva 2,40 metra á Demantamóti í Oregon í Bandaríkjunum í byrjun júní.

„Það er erfitt að átta sig á þessu. Að stökkva 2,41 metra er mikið afrek,“ sagði Bondarenko eftir stökkið en það þarf ekki að taka fram að þetta er besta stökk ársins og að sjálfsögðu besta stökk Úkraínumannsins á hans ferli.

Gay slær ekki slöku við

Bandaríski spretthlauparinn Tyson Gay virðist staðráðinn í að veita Usain Bolt alvöru samkeppni í 100 metra hlaupinu á HM í Moskvu í ágúst en hann heldur áfram að gera það gott á tímabilinu.

Gay náði besta tíma ársins á bandaríska úrtökumótinu á dögunum þegar hann hljóp á 9,79 sekúndum og hann jafnaði þann tíma er hann kom fyrstur í mark í Lausanne í kvöld. Jamaíkamaðurinn Asafa Powell, fyrrverandi heimsmetshafi, varð annar á 9,96 sekúndum.

Duncan minnir á sig

Nokkrar stjörnur töpuðu aftur á móti nokkuð óvænt í kvöld en bandaríski langstökkvarinn Brittney Reese þurfti að játa sig sigraðan öðru sinni á Demantamóti í kvöld.

Heims- og Ólympíumeistarinn stökk lengst 6,96 metra en Blessing Okagbare frá Nígeríu fór tveimur sentimetrum lengra og vann frábæran sigur.

Þá þurfti Evrópumeistarinn í 200 metra hlaupi kvenna, Mariya Ryemyen frá Úkraínu, einnig að játa sig sigraðran en hin stórefnilega Kimberlyn Duncan vann hlaupið á 22,61 sekúndu sem er besti tími ársins.

Duncan hafði betur í baráttunni gegn Ólympíumeistaranum Allyson Felix á bandaríska úrtökumótinu fyrir HM en þessi 22 ára gamla stelpa á augljóslega framtíðina fyrir sér og getur hæglega náð sér í verðlaun á HM í Moskvu.

Tyson Gay virðist líklegur til að veita Usain Bolt alvöru …
Tyson Gay virðist líklegur til að veita Usain Bolt alvöru samkeppni í Moskvu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert