María hætt keppni á skíðum

María Guðmundsdóttir.
María Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Benedikt

María Guðmundsdóttir, landsliðskona í alpagreinum, er hætt keppni á skíðum, aðeins 21 árs gömul, en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Skíðasamband Íslands sendi frá sér.

Í tilkynningunni segir meðal annars:

María hefur verið ein fremsta skíðakona landsins í alpagreinum undanfarin ár og var kjörin skíðakona ársins 2012 og 2013. Frá árinu 2009 hefur María þrisvar fagnað Íslandsmeistaratitli í svigi og einu sinni í stórsvigi auk fjölda Íslandsmeistaratitla í unglingaflokkum. Hún keppti fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu í Schladming í fyrra og hefur auk þess keppt nokkrum sinnum á heimsmeistaramótum unglinga og í Evrópubikarkeppninni.

Þrátt fyrir gott gengi hefur María lent í miklum meiðslum á sínum ferli en hún missti meðal annars af Ólympíuleikunum í Sochi vegna hnémeiðsla sem hún hlaut í vetur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert