Pistorius gæti keppt í Ríó 2016

Suður-Afríski hlauparinn Oscar Pistorius í réttarsal.
Suður-Afríski hlauparinn Oscar Pistorius í réttarsal. AFP

Suður-Afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius gæti keppt á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó de Janeiro í Brasilíu árið 2016, ef hann verður ekki í fangelsi á þeim tíma segja forráðamenn Alþjóða íþróttasambands fatlaðra, IPC.

Pistorius hefur verið fundinn sekur um morð á unnustu sinni, Reevu Steenkamp, en dómurinn úrskurðaði að morðið hefði ekki verið að yfirlögðu ráði, heldur fyrir mistök. Það kemur í ljós 13. október hve þung refsing Pistorius verður.

Oscar Pistorius er 27 ára og hefur verið einn þekktasti íþróttamaður úr röðum fatlaðra og ein af stjörnum síðustu Ólympíumóta fatlaðra. Þá keppti hann á HM ófatlaðra í frjálsíþróttum 2011 í Suður-Kóreu og á Ólympíuleikunum í London sumarið 2012.

„Við myndum allavega ekki standa í vegi hans að keppa á Ólympíumótinu í Ríó,“ er haft eftir Craig Spence talsmanni IPC.

„Oscar þyrfti samt fyrst að ákveða hvort hann vildi reyna að komast á Ólympíumótið í Ríó, og svo þyrfti hann að vera valinn í Ólympíuliðið af íþróttasambandi fatlaðra í Suður-Afríku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert