„Ég er alveg í skýjunum“

Eygló Ósk Gústafsdóttir bætti í dag um hálfs mánaðargamalt Íslands- og Norðurlandamet sitt í 200 metra baksundi á Íslandsmeistaramótinu í sundi sem fram fer í Laugardalslaug um helgina. Eygló kom í mark á tímanum 2:09,36 mínútum og bætti eigið met um hálfa sekúndu.

„Ég er mjög ánægð með þetta, alveg himinlifandi. Ég bjóst ekki við að bæta mig þó mig hafi langað rosalega til þess, ég er búin að vera að glíma við smá veikindi núna en er mjög ánægð,“ sagði Eygló Ósk við mbl.is eftir sundið, minnug þess að vera nýbúin að slá einmitt þetta met.

„Það er minna en tvær vikur síðan. Þetta er geðveikt, ég er alveg í skýjunum,“ sagði Eygló. Fyrra metið hafði hún sett á danska meistaramótinu og tryggði sér um leið sæti á Ólympíuleikunum í Ríó á næsta ári, en þar hefur hún stór markmið.

„Ég er með stór markmið núna. Ég vonast til að komast í úrslit á Ólympíuleikunum svo ég stefni hátt. Nú er bara að æfa, æfa og æfa. Ég ætla að reyna að klifra frekar upp heimslistann, en það er fínt að vera búin að ná Ólympíulágmarki svo ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því,“ sagði Eygló Ósk í samtali við mbl.is, en hún er hvergi nærri hætt og keppir meðal annars í 100 metra baksundi á morgun og 50 metra baksundi á sunnudag, svo það er nóg framundan.

Nánar er rætt við Eygló í meðfylgjandi myndskeiði.

Sjá: Eygló Ósk bætti eigið Íslands- og Norðurlandamet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert