Þáðu mútur vegna HM 2010

Loretta Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að stjórnarmenn í Alþjóðaknattspyrnusambandinu (FIFA) hafi þegið mútur í þeim tilgangi að tryggja það að heimsmeistaramótið í knattspyrnu gæti farið fram í Suður-Afríku árið 2010.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem stendur nú yfir, en hún hefur veitt upplýsingar um rannsókn bandarískra yfirvalda um meint spillingarmál innan FIFA.

Einnig kom fram að mútugreiðslur hefðu verið þegnar í tengslum við forsetkjör FIFA árið 2011 og í tengslum við Copa Libertadores-keppninni sem fram fer á næsta ári í Suður-Ameríku.

Alls voru sjö menn handteknir í tengslum við rannsókn bandarískra yfirvalda í Zürich í Sviss í dag. Þeirra á meðal er Jack Warner, fyrrverandi varaforseti FIFA, en hann er sakaður um að hafa alls þegið um 10 milljónir dala frá ríkisstjórn S-Afríku vegna mótsins sem fór þar fram fyrir fimm árum.

Þá hafa stjórnvöld í Sviss einnig hafið sjálfstæða rannsókn í tengslum við ferlið sem leiddi til þess að ákveðið var að halda HM í knattspyrnu í Rússlandi árið 2018 og 2022 í Katar. 

Alls hafa 14 verið ákærðir í málinu fyrir spillingu, en þeir eru sakaðir um að hafa þegið mútugreiðslur undanfarin 24 ár. Alls er upphæðin sögð nema rúmlega 150 milljónum dala, eða sem jafngildir rúmum 20 milljörðum króna

Lynch sagði, að stjórnarmenn í FIFA hefðu misnotað aðstöðu sína til að þiggja slíkar greiðslur. „Þeir gerðu þetta aftur og aftur, ár eftir ár, eina keppni eftir aðra.“

Þá kom fram á fundinum að þetta væri aðeins upphaf en ekki endalok rannsóknarinnar.

Loretta Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, boðaði til blaðamannafundar vegna málsins í …
Loretta Lynch, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, boðaði til blaðamannafundar vegna málsins í dag. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert