„Allir leikmenn lærðu eitthvað nýtt“

Úr leiknum í dag. Andreas Stefánsson með knöttinn.
Úr leiknum í dag. Andreas Stefánsson með knöttinn.

Belgar höfðu betur gegn Íslendingum í lokaleiks Íslands í undankeppni HM í bandý í Slóvakíu í dag þar sem lokatölur urðu 10:4. Íslenska liðið vann þar með einn leik en tapaði fjórum í þessari frumraun sinni í undankeppni stórmóts.

Íslendingar stjórnuðu leiknum mestallan fyrsta leikhluta. Belgar náðu þó að skora eitt mark, þó átti íslenska liðið fleiri skot á rammann.

Í öðrum leikhluta bættu Belgarnir við forystuna og skoruðu þrjú á móti einu marki Íslendinga. Íslenska liðið byrjaði þriðja leikhluta af krafti, náði að skora tvö mörk og minnka muninn í eitt mark.

Menn hvílast í dag.
Menn hvílast í dag.

Eftir mikinn baráttuleik í gær vantaði upp á úthaldið og Belgarnir gengu á lagið og skoruðu 5 mörk á síðustu 12 mínútum.

Ísland átti þó fleiri skot á mark í leiknum (33 gegn 41) en markvörður belgíska liðsins átti stórleik og varði 37 skot. Maður leiksins í íslenska liðinu var valinn Magnús Marteinsson.

Elmar Guðbrandsson þjálfari íslenska liðsins.
Elmar Guðbrandsson þjálfari íslenska liðsins.

„Þetta var erfitt. Leikurinn hefði breyst mikið hefðum náð að skora fyrsta markið og ekki vera að elta allan tímann. Þetta féll ekki með okkur í dag, stöngin út hjá okkur en inn hjá þeim,“ sagði Elmar Guðbrandsson, þjálfari íslenska liðsins, en hann segir íslenska liðið koma reynslunni ríkara til baka.

„Þetta var fyrsta alvörumót íslenska landsliðsins í bandý. Við lærðum mikið af þátttöku okkar, allir leikmenn lærðu eitthvað nýtt í hverjum einasta leik. Þessa reynslu tökum við með okkur og byggjum á henni. Með sigrinum á Frökkum og góðum leikjum sýndum við að við eigum fyllilega heima á þessum vettvangi,“ sagði Elmar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert