Tvöfaldur Ólympíumeistari lengi frá

Yelena Isinbajeva verður frá keppni næstu tvo til þrjá mánuðina …
Yelena Isinbajeva verður frá keppni næstu tvo til þrjá mánuðina hið minnsta. AFP
Rússneski stangastökkvarinn Jelena Isinbajeva sem er núverandi heimsmethafi kvenna í greininni og tvöfaldur Ólympíumeistari verður frá næstu tvo til þrjá mánuði, en vöðvi rifnaði í vinstri fæti hennar um helgina. 

Isinbajeva sem er 33 ára gömul hóf nýlega keppni að nýju eftir tveggja ára hlé vegna barnsburðar árið 2014. Isinbajeva tilkynnti á síðasta ári að hún ætlaði að snúa aftur til keppni og hefði sett stefnuna á komast á Ólympíuleikana í fjórða sinn, í Ríó í ágúst.

Óháð fyrrgreindum meiðslum er alls kostar óvíst hvort Isinbajeva, líkt og aðrir rússneskir frjálsíþróttamenn, verði með í Ríó. Eins og sakir standa hefur Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, meinað Rússum þátttöku á mótum á vegum sambandsins vegna lyfjamisferlis sem rússnesk yfirvöld eru sökuð um að hafa hylmt yfir með rússnesku frjálsíþróttafólki.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert