Fyrirliðinn segir stigið skipta máli

Ingvar Þór Jónsson, fyrirliði íshokkílandsliðsins, var ekkert mjög niðurdreginn þrátt fyrir sárt tap fyrir Belgíu, í fyrsta leiknum í A-riðli 2. deildar heimsmeistaramótsins í Jaca á Spáni í dag, þegar mbl.is tók hann tali.

Ingvar hefur marga fjöruna sopið í íþróttinni en leikurinn í dag var hans 84. A-landsleikur. Belgía sigraði eftir framlengingu og vítakeppni og fékk fyrir það aukastig en liðin fengu sitt hvort stigið fyrir jafnteflið í venjulegum leiktíma. Ingvar sagði að stigið gæti skipt máli fyrir Ísland þegar uppi verður staðið því liðin í riðlinum eru flest býsna jöfn að styrkleika. Ingvar ætti að vita um hvað hann er að tala enda búinn að vera í landsliðinu síðan 1999 án þess að missa úr leik. 

Ísland komst í 2:0 í leiknum og í 3:2. Liðið var hins vegar 3:4 undir þar til Björn Róbert Sigurðarson jafnaði 4:4 þegar 23 sekúndur voru eftir. Belgar höfðu hins vegar betur í vítakeppninni.

„Við áttum fullt af dauðafærum bara rétt við markið. Hugsanlega voru svipað mörg skot hjá liðunum en ég held að við höfum átt fleiri góð færi. En við náðum ekki að nýta þau,“ sagði Ingvar um leikinn og nefndi einnig að nokkur rígur væri farinn að myndast á milli þessara þjóða á ísnum en Ísland vann Belgíu 2014 og 2015 en Belgía hafði betur árið 2013. 

Viðtalið við Ingvar í heild sinni er að finna á meðfylgjandi myndskeiði. 

Frá leik liðanna í Jaca í dag.
Frá leik liðanna í Jaca í dag. mbl.is
Ingvar Þór Jónsson
Ingvar Þór Jónsson mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert