Hodgson anaði út í óvissuna

Rio Ferdinand hefur áhyggjur af enska landsliðinu.
Rio Ferdinand hefur áhyggjur af enska landsliðinu. AFP

Rio Ferdinand segir tapið gegn Íslandi í gær afar vandræðalegt og furðaði sig á því hvernig hægt væri að vera kominn inn á stórmót án þess að vita hverjir eigi að skipa sterkasta liðið eða þá hvernig liðið eigi að spila. Hann beinir spjótum sínum gegn Roy Hodgson, landsliðsþjálfara. 

„Þetta er vandræðalegt. Ef þú tekur þátt í móti án þess að hafa hugmynd um hverjir eiga að skipa þitt sterkasta lið þá ertu kominn í vandræði,“ sagði Rio Ferdinand í viðtali við  BBC eftir leik Englands og Íslands í gærkvöldi í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu.

Roy Hodgson sagði starfi sínu lausu strax eftir leikinn.

„Í öllum leikjunum vorum við í erfiðleikum. Við rétt unnum Wales og töpuðum síðan fyrir liði sem á pappírunum er mikið veikara en okkar,“ sagði Ferdinand.

„Í hreinskilni sagt þá var ég spenntur fyrir enska liðinu fyrir mótið. Ég bjóst ekki við því að við myndum vinna EM, en ég vonaði að við myndum fara í gegnum mótið á jákvæðum nótum,“ sagði Ferdinand, undrandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert