Hetjur á ferð í Frakklandi

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Ekki er ofsagt að íslenska landsliðið í fótbolta hafi slegið rækilega í gegn á EM í Frakklandi með stórbrotinni frammistöðu. Stuðningsmenn liðsins hafa líka vakið athygli fyrir vasklega framgöngu, mikla gleði og samstöðu og nú er svo komið að hvarvetna fagna menn stuðningsmönnunum og halda gjarnan með liði Íslands ef keppinauturinn er ekki þjóð viðkomandi. Reyndar eru einnig mörg dæmi um að Ísland sé fyrsti kostur.

Umfjöllun um Ísland og Íslendinga einskorðast ekki við Frakkland því gott gengi landsliðsins hefur vakið heimsathygli og er mjög skiljanlegt; frammistaða liðs fámennustu þjóðar sem nokkru sinni hefur tekið þátt í móti sem þessu er skemmtilegasta sagan á EM.

Fjölgar velgengnin ferðamönnum?

Fyrst vakti það verðskuldaða athygli að liðið kæmist upp úr riðlinum og yrði meira að segja í öðru sæti þar, á undan Portúgölum! Jafntefli gegn Portúgal og Ungverjalandi og síðan sigur á Austurríki fengu marga til að staldra við og gefa íslenska liðinu auga. Sigurinn á Englandi í Nice hefur svo gert það að verkum að allir fjölmiðlar heimsins vilja nú fylgjast með Íslendingum, segja sögu þess og spyrja spurninga um möguleg áhrif á land og þjóð.

Einn kollegi spurði í vikunni: Heldurðu að árangurinn hér verði ekki til þess að ferðamönnum til Íslands fjölgi? Heldurðu ekki að allir vilji koma og sjá landið?

Svar: „Allir“ vilja eiginlega nú þegar koma til Íslands að því er virðist. Það er ekki víst að fleiri komist fyrir! Nefndi ekki sérstaklega að hentugt gæti verið að opna fluggátt inn í landið fyrir austan eða norðan ...

Samheldnin, baráttugleðin og vilji

Það hefur verið einstaklega skemmtilegt að elta landsliðið um Frakkland og fylgjast með hvernig það hefur farið í gegnum hverja raunina af annarri. Jafnteflið við Portúgal í fyrsta leik í Saint-Étienne þótti hetjulegt, jafntefli voru sanngjörn úrslit í leiknum við Ungverja í Marseille en flestir þó súrir vegna þess að Íslendingar skyldu ekki halda út og sigra, en Ungverjar jöfnuðu ekki fyrr en í blálokin.

Því næst var tekið á Austurríkismönnum í París og sá leikur var Íslendingum satt að segja mjög erfiður. En það sýnir auðvitað styrk liðsins að ná að sigra þrátt fyrir gífurlega harða sókn andstæðingsins. Varnarleikur liðsheildarinnar var frábær; samheldnin, baráttugleðin og viljinn komu vel í ljós og hraðaupphlaupið sem skóp sigurmarkið á allra síðustu sekúndunum verður lengi í minnum haft. Markið gerði það að verkum að Íslendingar fjölmenntu næst til Nice á Rívíerunni en ekki til Lens norður undir landamærunum að Belgíu eða Toulouse í suðvesturhluta landsins, helstu miðstöðvar flugvélaiðnaðarins í Evrópu. Þar eru m.a. höfuðstöðvar flugvélaframleiðandans Airbus, stærsti gervihnattaframleiðandi álfunnar er þar og aðalgeimferðamiðstöð Evrópu. Margir hafa án efa haft áhuga á að skoða það sem þar er í boði en líklegt að fjöldinn hafi glaðst verulega yfir að fá tækifæri til að skreppa til þeirrar yndislegu borgar Nice.

Flytur trúin fjöll?

Sólin tók á móti Íslendingum við Miðjarðarhafið og augljóst var að þar kunnu þeir vel við sig. Ekki að undra að íslenskt flugfélag skuli loks vera farið að bjóða upp á ferðir til þeirrar paradísar sem franska Rívíeran er og ég hef raunar furðað mig á því árum saman að Íslendingar skuli ekki flykkjast þangað. Tungumálið var að vísu lengi þröskuldur sem erfitt var að stíga yfir en nú orðið tala margir Frakkar prýðilega ensku, sem Íslendingum er almennt töm, svo enginn hefur neitt að óttast!

Ævintýrið heldur senn áfram. Íslensku fótboltahetjurnar hafa tekið því rólega síðan eftir Englandsleikinn, í heimabæ sínum, Annecy, perlu frönsku Alpanna eins og sá litli, vinalegi bær er stundum kallaður. Hafa æft létt og búið sig andlega og líkamlega undir stórleikinn gegn Frökkum í París um helgina. Oft hefur verið talað um stærstu stund í sögu íslenskrar knattspyrnu og það á að sjálfsögðu við nú, enn einu sinni, að minnsta kost hvað landslið karla varðar.

Spennandi verður að sjá hverju fram vindur. Það verður að sjálfsögðu ekkert grín að mæta sterku liði heimamanna á þjóðarleikvanginum í átta liða úrslitum þessa stórmóts, en íslensku hetjurnar hafa sýnt og sannað að allt er hægt. Að trúin flytur fjöll. Hetjurnar hafa sýnt hverju samhugur í verki, einlægur vilji til að gera sitt besta og ódrepandi baráttuandi getur komið til leiðar. Fróðlegt verður að sjá hvort liðinu tekst, búnu þessum hættulegu vopnum, að stíga einu skrefi lengra á mótinu.

Keegan spámannlega vaxinn?

Ég hafði alltaf miklar mætur á Englendingnum Kevin Keegan sem leikmanni. Íslendingar almennt hafa án efa mætur á honum sem manni eftir að hann gerðist svo djarfur að spá því á ráðstefnu í Reykjavík um daginn að Ísland yrði Evrópumeistari í Frakklandi, þótt sumir hafi líklega brosað út í annað.

Er það möguleiki? Spyrjið Dani og Grikki; þótt þær þjóðir séu vissulega mun fjölmennari en okkar eru þær alla jafna ekki taldar til stórþjóða á fótboltasviðinu. En mannfjöldi er svo sem bara tala. Skiptir ekki máli þegar á hólminn er komið. Og „stórþjóð“ er bara orð á blaði.

Spennandi verður að sjá, eftir EM, hvort við getum haft mætur á Kevin Keegan sem spámanni.

Hvernig sem fer, munum að njóta!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert