Veðrið truflaði Snorra fyrir HM

Snorri Einarsson.
Snorri Einarsson.

Undirbúningur Snorra Einarssonar fyrir fyrsta stórmótið sem fulltrúi Íslands, HM í norrænum greinum, hefur ekki gengið klakklaust fyrir sig. HM hefst í Lahti í Finnlandi í dag. Snorri keppir á laugardag. Hann er líklegastur til afreka af fimm Íslendingum sem keppa á mótinu enda sá eini sem tryggði sér sæti með því að ná HM-lágmarki.

Snorri, sem fékk silfur á FIS-móti í Finnlandi í nóvember, í 15 km göngu með frjálsri aðferð, hefur efst náð 76. sæti á heimslistanum. Forvitnilegt verður að sjá hvar hann endar á HM en Snorri hyggst keppa í skiptigöngu á laugardag og svo í 15 km göngu með hefðbundinni aðferð næsta miðvikudag.

Veikindi hafa sett strik í reikninginn í undirbúningi Snorra en hann þurfti að hætta við heimsbikarmót í Frakklandi 19. desember og lá veikur heima yfir jólin. Hann hefur ekki keppt í neinni HM-greina sinna síðan í nóvember. Þá hefur ferðalag Snorra á HM ekki gengið snurðulaust fyrir sig en hann var við æfingar í svissnesku ölpunum og hugðist fara þaðan heim til Tromsø í Noregi í fyrradag, en vegna veðurs var vélinni snúið aftur til Ósló.

„Við flugum til Tromsö en gátum ekki lent svo að það var farið til Bodø, og svo aftur til Gardermoen. Ég var kominn upp í rúm kl. hálfþrjú,“ sagði Snorri við Aftenposten, en hann ferðaðist svo til Tromsø í gær, á 31 árs afmæli sínu.

„Þetta er ekkert fullkomið en ég kemst heim og næ að hlaða aðeins batteríin áður en ég fer til Lahti á miðvikudag [í dag],“ sagði Snorri.

Snorri er uppalinn í Noregi en hóf að keppa fyrir Íslands hönd í vetur. Auk hans verða þau Brynjar Leó Kristinsson, Sævar Birgisson, Albert Jónsson og Elsa Guðrún Jónsdóttir meðal keppenda á HM. Þau fjögur þurfa að taka þátt í undankeppni í dag fyrir keppni í lengri vegalengdum. Á morgun er keppt í sprettgöngu, á laugardag í skiptigöngu, þá liðaspretti og svo í 10 km göngu kvenna með hefðbundinni aðferð næsta þriðjudag, og 15 km göngu karla með hefðbundinni aðferð 1. mars. sindris@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert