Söknuðurinn gerði fljótt vart við sig

Dominiqua Alma Belányi var í Norðurlandameistaraliði Íslands í fyrra.
Dominiqua Alma Belányi var í Norðurlandameistaraliði Íslands í fyrra. mbl.is/Golli

Bikarmótið fer fram á morgun í húsakynnum Bjarkar í Hafnarfirði, og er keppni kvenna á milli 14 og 16. Dominiqua hefur fagnað sigri með Ármanni síðustu tvö ár en áður hafði Gerpla unnið í tíu ár í röð.

„Keppnin í ár er mjög hörð. Þessi þrjú bestu lið [Ármann, Björk og Gerpla] mæta með mjög sterka keppendur, keppendur sem eru í landsliðinu og hafa verið að standa sig vel á mótum í vor. Ég held að þetta verði mjög jafnt,“ segir Dominiqua. Takist Ármanni að fullkomna þrennuna er ljóst að hún og ólympíufarinn Irina Sazonova koma til með að vera í lykilhlutverkum, og Dominiqua kveðst í góðu formi eftir nokkurra mánaða hlé í haust:

„Ég er öll að koma til. Ég tók mér smáfrí eftir Evrópumótið þar sem ég fór ekki að keppa í Ríó [á Ólympíuleikunum í ágúst]. Ég var því ekki að æfa á fullu frá september og fram í desember, en kom ákveðin til baka í janúar og hef verið að leggja allt í þetta síðan þá. Ég er að komast í 100% form,“ segir Dominiqua, en hvers vegna ákvað hún að taka sér hlé?

Stefnan sett á tvö stórmót

„Ég er búin að vera í fimleikum í rúmlega 19 ár og við fáum ekki langar pásur á hverju ári. Þetta tekur mikið á, og þó að ég hafi æft á fullu öll þessi ár þá kláraði ég líka menntaskóla, BA-nám og er í mastersnámi. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort það væri kominn tími til að prófa eitthvað nýtt, en svo kom þessi söknuður. Maður fór að mæta meira, prófa sig áfram, og allt í einu var allt komið til baka. Keppnisformið kom aftur og boltinn fór að rúlla,“ segir Dominiqua brosandi. Endurkoman var skiljanlega krefjandi:

„Líkamlega tók þetta mjög mikið á, en eftir því sem tíminn líður þá verður þetta auðveldara og skemmtilegra. Andlega var ákvörðunin fyrst svolítið erfið, því ég fann ekki alveg markmiðin mín og fannst þau ekki alveg nógu stór fyrir alla þessa vinnu sem ég hef lagt á mig. En eftir því sem ég hef æft meira er ég farin að geta sett mér raunhæf og stór markmið,“ segir Dominiqua, en þau markmið felast í því að bæta fleiri stórmótum á ferilskrána:

„Ég stefni á Evrópumótið eftir sirka fjórar vikur, í Rúmeníu, og það yrði mitt sjöunda Evrópumót. Svo er heimsmeistaramót í Kanada í haust sem yrði mitt fjórða heimsmeistaramót.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert