Tvö Íslandsmet og verðlaunaregn í frjálsum

Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ívar Kristinn Jasonarson voru í eldlínunni …
Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ívar Kristinn Jasonarson voru í eldlínunni í San Marínó. mbl.is/Golli

Það var heldur betur verðlaunaregn sem dundi á íslensku keppendunum á frjálsum íþróttum á síðasta keppnisdeginum á Smáþjóðaleikunum í San Marínó í dag. Þá voru slegin tvö Íslandsmet.

Það voru tvö verðlaun sem litu dagsins ljós í 200 metra hlaupi karla, þar sem Kolbeinn Höður Gunnarsson sigraði á tímanum 21,20 sekúndum. Ari Bragi Kárason varð þriðji á 21,78 sekúndum. Í 200 metra hlaupi kvenna fékk Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir silfur á tímanum 24,13 sekúndum og fjórða varð Tiana Ósk Whitworth á tímanum 24,53 sekúndum.

Það var svo einnig tvöfalt í spjótkasti karla þar sem Örn Davíðsson sigraði með kasti upp á 74,81 metra. Guðmundur Sverrisson fékk brons þegar hann kastaði 71,27 metra. Í kringlukasti kvenna fékk Thelma Lind Kristjánsdóttir brons með kasti upp á 49,38 metra.

María Rún Gunnlaugsdóttir varð í fjórða sæti í 100 metra grindahlaupi á tímanum 14,69 sekúndum. Þorsteinn Ingvarsson var fjórði í þrístökki karla með stökki upp á 14,43 metra.

Þegar komið var að sveitakeppnunum héldu íslensku keppendunum svo engin bönd. Tvöfaldur sigur var í 4x100 metra hlaupi því Ísland vann bæði í karla og kvennaflokki. Ekki nóg með það heldur settu báðar sveitirnar Íslandsmet.

Í kvennaflokki hlupu þær Tíana Ósk Whitworth, Hrafnhild Hermóðsdóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Arna Stefanía Guðmundsdóttir. Tími sveitarinnar var 45,31 sekúndur sem tryggði gullið og Íslandsmet.

Í karlaflokki skipuðu þeir Trausti Stefánsson, Ívar Kristinn Jasonarsson, Kolbeinn Höður Gunnarsson og Ari Bragi Kárason sveit Íslands sem sigraði á tímanum 40,45 sekúndum. Það er líka nýtt Íslandsmet.

Í 4x400 metra hlaupi kom gullið einnig til Íslands þegar sveitin, skipuð þeim Maríu Rún Gunnlaugsdóttur, Hrafnhildi Hermóðsdóttur, Guðbjörgu Jónu Bjarnadóttur og Örnu Stefaníu Guðmundsdóttur, kom í mark á tímanum 3:47,64 mínútum.

Í 4x400 metra hlaupi karla hlupu þeir Kolbeinn Höður Gunnarsson, Kristinn Kristinsson, Bjartmar Örnuson og Trausti Stefánsson í sveit Íslands. Þeir höfnuðu í fjórða sæti á tímanum 3:17,19 sekúndum og voru um tveimur sekúndum á eftir sveitum Lúxemborgar, Kýpur og Mónakó sem komu í mark með samtals 43/100 úr sekúndu millibili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert