Toppárangur þarf til

Aníta Hinriksdóttir er búin að tryggja sér þátttökurétt á HM.
Aníta Hinriksdóttir er búin að tryggja sér þátttökurétt á HM. AFP

Heimsmeistaramótið í frjálsum íþróttum verður haldið á Ólympíuleikvanginum í London í ágúst. Lágmörkin sem ná þarf til að öðlast keppnisrétt í mótinu þykja afskaplega þung en almennt séð hafa lágmörkin fyrir stórmótin verið að þyngjast nokkuð ört síðustu árin.

Eins og sakir standa er einn Íslendingur með keppnisrétt á HM en það er Aníta Hinriksdóttir sem mun keppa í 800 metra hlaupi eins og flestir íþróttaáhugamenn átta sig á. Lágmarkið í þeirri grein er 2:01,00 mínútur en Íslandsmet hennar frá Ólympíuleikunum í Ríó í fyrra er 2:00,14 mínútur. Eitt af markmiðum sumarsins hjá Anítu er væntanlega að rjúfa tveggja mínútna múrinn. Því má bæta við að Aníta hefur einnig náð lágmarki í 1.500 hlaupi en ekki er vitað hvort hún vill keppa í þeirri grein á HM.

Nú er spurning hvort fleiri Íslendingar komi til með að ná lágmarki fyrir mótið. Fari svo að það gerist ekki þá hefur Frjálsíþróttasamband Íslands heimild til að senda einn karlmann til keppni. Heimilt er að senda einn keppanda af hvoru kyni ef enginn nær lágmarki. Aníta hefur náð lágmarkinu og vegna kynjakvóta er ekki hægt að senda aðra konu heldur yrði það að vera karl. En þessar vangaveltur miðast við ef ekki ná fleiri Íslendingar lágmarki en við skulum vona að fleiri nái því. Ná þarf tilskildum lágmörkum á tímabilinu 1. október 2016 til 23. júlí 2017. Ekki er heldur öruggt að FRÍ myndi þiggja boðið um að senda karlmann á mótið en ákvörðun verður tekin síðar ef sú staða kemur upp.

Sjá alla fréttaskýringu Kristjáns Jónssonar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert