Birgir lék á 68 höggum á lokadeginum í Kína

Birgir Leifur Hafþórsson slær á lokakeppnisdeginum í Kína.
Birgir Leifur Hafþórsson slær á lokakeppnisdeginum í Kína. Reuters

Birgir Leifur Hafþórsson lék vel á fjórða og síðasta keppnisdegi TCL-meistaramótsins í golfi á Evrópumótaröðinni en hann fékk fimm fugla (-1) og einn skolla (+1) og lék á 68 höggum, fjórum höggum undir pari. Samtals lék Birgir á 10 höggum undir pari og er hann í 27. sæti mótsins sem er besti árangur hans á Evrópumótaröðinni frá upphafi. Birgir gæti færst ofar á listanum þar sem að keppni er ekki lokið í Kína.

Birgir byrjaði á því að fá átta pör í röð en hann fékk fugl á 9. braut og lék fyrri 9 holurnar á 35 höggum. Á síðari 9 holunum gekk honum enn betur þar sem hann fékk fugl á 11., 13., 14. og 16. braut. Eini skolli dagsins kom á 15. braut. Birgir lék hringina fjóra á 68, 70, 72 og 68 höggum.

Skorkort Birgis.

Staðan á mótinu.

Verði þetta lokaniðurstaðan hjá Birgi á mótinu að enda í 27. sæti fær hann um 700.000 kr. í verðlaunafé en það er hæsta upphæð sem hann hefur unnið sér inn á golfmóti til þessa. Þetta er fjórða mótið á þessu keppnistímabili á Evrópumótaröðinni hjá Birgi og hafði hann fyrir mótið í Kína komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur mótum í röð. Hann var í 226. sæti á peningalista Evrópumótaraðarinnar með um 330.000 kr. samtals í verðlaunafé en það er ljóst að hann fer mun ofar á peningalistanum eftir mótið á Hainan eyju í Kína.

Árið 2005 lék Birgir á þremur mótum á Evrópumótaröðinni og 49. sæti á móti í Sviss var besti árangur hans en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn á hinum tveimur. Árið 2003 lék Birgir einnig á þremur mótum á Evrópumótaröðinni og náði hann besta árangri sínum til þess á Madeira þar sem hann endaði í 32. sæti. Hann komst í gegnum niðurskurðinn á tveimur mótum árið 2005 og á móti á Írlandi endaði hann í 43. sæti. Árið 1998 lék Birgir á þremur mótum á Evrópumótaröðinni og komst í gegnum niðurskurðinn á tveimur þeirra. Hann varð í 53. sæti á móti sem fram fór á Mallorca á Spáni og í Marokkó endaði hann í 68. sæti.

birgirleifur.blog.is

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert