Birgir Leifur: „Eitt sterkasta Íslandsmót frá upphafi“

Íslandsmótið í höggleik í golfi hefst á fimmtudaginn á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði og eru allir sterkustu kylfingar landsins skráðir til leiks. Aldrei áður hafa jafnmargir atvinnukylfingar leikið á Íslandsmótinu og einn þeirra er Birgir Leifur Hafþórsson atvinnukylfingur úr GKG. Birgir hefur náð ágætum árangri á Evrópumótaröðinni á tímabilinu. Hann hefur þrívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum og ætlar Birgir að sjálfsögðu að berjast um sigurinn á Íslandsmótinu í ár.

Hörður Þorsteinsson framkvæmdastjóri Golfsambands Íslands sagði á fundi með fréttamönnum í dag að metþátttaka væri á mótinu. Alls hefja 150 kylfingar leik á fimmtudaginn, 122 karlar og 23 konur, en keppendum verður fækkað í karlaflokknum að loknum öðrum keppnisdegi af alls fjórum.

Aðeins þeir sem eru með 4,3 í forgjöf í karlaflokki komust að á mótinu að þessu sinni en það komust færri að en vildu á mótið.

Hvaleyrarvöllur er í fínu ástandi þrátt fyrir mikla þurrka að undanförnu en ýmsar smávægilegar breytingar hafa verið gerðar á vellinum að undanförnu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert