Tilfinningin þegar boltinn datt er ólýsanleg

Kristján Þór Einarsson.
Kristján Þór Einarsson. mbl.is/Sigfús

Kristján Þór Einarsson úr Kili í Mosfellsbæ komst inn í toppbarátuna bakdyramegin og hann gerði sér lítið fyrir og hafði betur í umspili við Heiðar Davíð Bragason úr GR og Íslandsmeistarann Björgvin Sigurbergsson úr Keili og lék síðan tveggja holna bráðabana við Heiðar Davíð. Sannarlega óvænt úrslit enda munaði ellefu höggum á Kristjáni Þór og Heiðari Davíð þegar leikur hófst á síðasta degi.

„Tilfinningin þegar boltinn datt í síðasta púttinu er ólýsanleg. Hún var frábær,“ sagði Kristján Þór alsæll eftir að hann hafði tekið við bikarnum sem fylgir nafnbótinni Íslandsmeistari í höggleik í golfi.

„Ég stefndi ekki á sigur í þessu móti fyrr en ég fékk fréttirnar af þeim í síðasta ráshóp á sextándu og síðan að þeir Björgvin og Heiðar Davíð hefðu báðir fengið skolla á sautjándu. Þá var ég að pútta fyrir fugli á síðustu holu og Ingi Rúnar [Gíslason golfkennari hjá Kili] kom til mín og sagði mér þetta og jafnframt að ef ég setti þetta stutta pútt í þá myndi ég vinna mótið. Ég setti púttið í og vann síðan þannig að þetta reyndist rétt hjá honum,“ sagði Kristján Þór.

„Fyrir síðasta hring ákvað ég að stefna að því að ná Ottó og þriðja sætinu. Það voru ekki nema fimm högg í það og mér fannst það alveg raunhæft og var því ákveðinn í að fara bara út og njóta þess að spila golf,“ sagði meistarinn.

Umspil við tvo reynslubolta í golfinu hlýtur að hafa tekið á taugarnar, eða hvað?

„Nei, það var mesta furða. Ég var reyndar smástressaður í teighögginu á sextándu brautinni en það var fyrsta holan sem við spiluðum í umspilinu. En eftir það var þetta ekkert mál og ég var sallarólegur.

Eftir að ég fór yfir tjörnina með hálfvitanum í síðari umferðinni í bráðabananum þurfti ég að láta boltann lenda rétt til að hann færi í rétta átt og það tókst. En það var samt óþægilega langt pútt eftir – sérstaklega þetta pútt,“ segir Kristján Þór en hann átti um eins metra pútt eftir, en setti það í og fagnaði að vonum.

„Það var frábært þegar hann datt – alveg yndisleg tilfinning og ég gæti alveg hugsað mér að gera þetta aftur,“ sagði nýkrýndur meistari.

Hann segist ekki hafa spilað neitt sérstaklega vel á mótaröðinni í sumar en þó átt ágætt mót á Suðurnesjum í roki líkt og var í Eyjum. Fær hann þá þann stimpil á sig að vera betri í roki, líkt og sumir segja um Björgvin? „Ég vona það, það er ekki leiðinlegt.

Hérna var þetta spurning um að koma boltanum í leik og halda sig á vellinum. Ég tók ekkert víti í mótinu, var alltaf í leik þannig að þetta var algjör draumur,“ sagði Kristján Þór.

Þegar Heiðar Davíð fór á 16. teiginn átt hann þrjú högg á Björgvin og átta högg á Kristján Þór. Það fór allt í vaskinn á þessari erfiðu par 5 braut, sem er erfið dags daglega en batnar ekki í miklum mótvindi eins og var í gær. Björgvin sló einn bolta í sjóinn og síðan kom Heiðar Davíð og sló þrjá í hafið. En hvað gerðist?

„Það er rétt að byrja á 15. því þar fauk boltinn hans Ottós á flötinni og það er merki um að það sé óleikhæft. Á 16. teignum stóðum við varla í fæturna. Bjöggi sló einn út og ég miðaði á hólinn lengst hægra megin. En maður þurfti að standa svo mikið á móti vindinum þegar maður sló að það var ekki hægt annað en slá til vinstri. Það var bara spurning hversu mikið til vinstri maður sló,“ sagði Heiðar Davíð eftir að hann lauk leik.

Hann sagði ekki hafa hvarflað að sér að skipta um verkfæri, enda hefði það ekkert verið betra.

„Ég er í raun sáttur við mótið. Auðvitað vill maður ekki tapa, en ég spilaði 71 holu hérna mjög vel og þetta herðir mann vonandi. Ég verð tilbúinn í september í úrtökumótið, það er mótið sem skiptir máli,“ sagði Heiðar Davíð.

„Það þýðir ekkert að velta sér upp úr þessari holu, maður verður að vera stærri maður en það. Kristján er vel að þessu kominn, hann spilaði stöðugt og gott golf í fjóra daga. Við ráðum ekkert við náttúruöflin og golfið er bara svona.

Maður má ekki hugsa um þetta og velta sér upp úr þessu, en næst þegar ég kem á þessa holu hugsa ég örugglega um að ég eigi nokkra bolta þarna úti í fjöru. En ef maður ætlar að endast eitthvað í þessu sporti verður maður að vera nógu mikill maður til að taka á þessu,“ sagði Heiðar Davíð.

Ítarleg umfjöllun um Íslandsmótið í golfi er í Morgunblaðinu í dag.

Lokastaðan í Eyjum

Meistaraflokkur karla

Kristján Þór Einarsson, GKj 284 +4

(70-72-73-69)

Heiðar Davíð Bragason, GR 284

(69-67-68-80)

Björgvin Sigurbergsson, GK 284

(66-67-68-75)

*Kristján Þór hafði betur eftir þriggja holna umspil og tveggja holna bráðabana.

Sigmundur Einar Másson, GK G287

Sigurpáll Geir Sveinsson, GKj 288

Örn Ævar Hjartarson, GV 290

Júlíus Hallgrímsson, GV 292

Ottó Sigurðsson, GR 292

Guðjón Henning Hilmarsson, GKG 293

Haraldur Franklín Magnús, GR 293

Ólafur Björn Loftsson, NK 295

Auðunn Einarsson, GK 295

Birgir Guðjónsson, GR 295

Pétur Óskar Sigurðsson, GR 296

Sigurþór Jónsson, GR 298

Alfreð Brynjar Kristinsson, GKG 299

Ólafur Hreinn Jóhannesson, GS 299

Þorsteinn Hallgrímsson, GV 299

Axel Bóasson, GK 300

Hlynur Geir Hjartarson, GK 300

Arnar Snær Jóhannsson, GR 300

Stefán Már Stefánsson, GR 300

Andri Þór Björnsson, GR 300

Sigurður Pétursson, GR 301

Ingi Rúnar Gíslason, GKj 302

Pétur Freyr Pétursson, GR 302

Vignir Freyr Andersen, GR 302

Karl Haraldsson, GV 302

Haukur Már Ólafsson, GKG 302

Meistaraflokkur kvenna

Helena Árnadóttir, GR 308 +28

(82-72-77-77)

Nína Björk Geirsdóttir, GKj 308

(79-75-76-78)

*Helena hafði betur eftir þriggja holna umspil og tveggja holna bráðabana.

Tinna Jóhannsdóttir, GK 311

Eygló Myrra Óskarsdóttir, GO 313

Ragnhildur Sigurðardóttir, GR 316

Ásta Birna Magnúsdóttir, GK 317

Valdís Þóra Jónsdóttir, GL 317

Þórdís Geirsdóttir, GK 319.



Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert