Metin héldu velli á Masters

Jordan Spieth átti möguleika á því að verða yngsti sigurvegari …
Jordan Spieth átti möguleika á því að verða yngsti sigurvegari á Masters. AFP

Metin héldu velli á Augusta National-golfvellinum í Georgíu-ríki í Bandaríkjunum í gærkvöldi. Fyrir lokahringinn voru tvö met í hættu en þau héldu velli. 

Jordan Spieth átti möguleika á því að verða sá yngsti til að sigra á Masters en hann var með forystu ásamt Bubba Watson fyrir lokahringinn. Hann hafnaði í 2.-3. sæti, þremur höggum á eftir Watson. Tiger Woods á því enn metið en hann var ekki orðinn 22 ára þegar hann sigraði á Masters með tólf högga mun árið 1997. Spieth verður 21 árs í sumar. Tom Morris yngri er sá yngsti sem sigrað hefur á risamóti en hann var á átjánda ári þegar hann vann Opna breska meistaramótið árið 1868. 

Jack Nicklaus er sá elsti sem hefur unnið risamót. Var 46 ára þegar hann vann Masters árið 1986. Spánverjinn Miguel Angel Jimenez hafnaði í fjórða sæti í gærkvöldi, fjórum höggum á eftir Watson. Jimenez er fimmtugur. Bandaríkjamaðurinn Fred Couples átti eina ferðina enn möguleika fyrir lokahringinn á Masters en lék ekki nógu vel á seinni níu holunum. Hann er 54 ára. Þá lék hinn 56 ára Bernhard Langer á parinu samtals. Met Nicklaus gæti hæglega fallið á næstu árum en Tom Watson var höggi frá því að slá það svo um munaði á Opna breska árið 2009, þá 59 ára gamall. 

Við Norðurlandabúar þurfum að bíða enn um sinn eftir því að eignast sigurvegara á risamóti karla í golfi. Svíinn Jonas Blixt gerði heiðarlega tilraun í gærkvöldi og lék á fimm undir pari samtals og varð jafn Jordan Spieth. Auk þess var Daninn reyndi, Thomas Björn, í baráttunni fyrir lokahringinn en gerði sér ekki mat úr sínum tækifærum í gær. Björn átti alla möguleika á sigri á Opna breska árið 2003 en kastaði þá frá sér sigri þegar hann þurfti þrjú högg til að komast upp úr sandgryfju á 70. holu mótsins. 

Thomas Björn er ekki dauður úr öllum æðum. Hér þakkar …
Thomas Björn er ekki dauður úr öllum æðum. Hér þakkar hann Justin Rose fyrir hringinn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert