Leikið á landsbyggðinni á fimm ára fresti

Birgir Leifur Hafþórsson GKG slær á Jaðarsvelli á Akureyri.
Birgir Leifur Hafþórsson GKG slær á Jaðarsvelli á Akureyri. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Á Ársþingi Golfsambands Íslands sem fram fer um helgina verður meðal annars lögð fram tillaga þess efnis að Íslandsmótið í höggleik verði haldið á höfuðborgarsvæðinu í fjögur skipti af hverjum fimm. Frá þessu er greint á kylfingur.is.

Er það komið frá starfshópi sem skipaður var nítján manns og vann að framtíðartillögum og hugmyndum fyrir Eimskipsmótaröðina. Lagði hópurinn fram tillöguna fyrir stjórn GSÍ og verður málið tekið fyrir um helgina.

Íslandsmótið í höggleik verður haldið á Akureyri á næsta ári og samkvæmt heimildum kylfings.is hlutu þessar hugmyndir sem hér er rætt um ekki góðar mótttökur hjá forráðamönnum Golfklúbbs Akureyrar þegar þeir heyrðu þær nýlega á fundi með stjórn GSÍ. Ekki var eining um þetta atriði í starfshópnum af því er kemur fram í niðurstöðum hans.

Golfvellir á landsbyggðinni sem haldið hafa Íslandsmót hafa verið Vestmannaeyjar (síðast 2008), Akranes (2015), Leira (2011), Hella (2012) og Kiðjabergsvöllur (2010). Það gætu því liðið 30 ár þangað til Íslandsmót fer aftur á Jaðarsvöll á Akureyri. Vellir á höfuðborgarsvæðinu sem hafa haldið mótið eru tveir vellir GR, Grafarholt (2009) og Korpa (2013), Hvaleyrin (2007), Urriðavöllur (2006) og Leirdalsvöllur (2013).

Hlíðavöllur í Mosfellsbæ ætti svo að bætast í hópinn á næstu árum, en samkvæmt heimildum kylfingur.is mun hann tilheyra landsbyggðinni. Það munu því fjórir klúbbar á höfuðborgarsvæðinu skipta með sér mótunum en sjö aðrir á landsbyggðinni munu þurfa að bíða í allt að 35 ár á milli þess að halda mótið.

Ekki kemur fram í tillögunum hvaða vellir á höfuðborgarsvæðinu verði notaðir og hvernig skiptingin verði á milli þeirra. Það hefur þó verið ákveðið að Íslandsmótið verði á Hvaleyri 2017 en þá fagnar klúbburinn hálfrar aldar afmæli. Mótið ætti því samkvæmt tillögunum að vera á höfuðborgarsvæðinu árin 2018 til 2020. Næsta mót á landsbyggðinni verður því næst 2021, og líklega í Eyjum en lengst er síðan mótið hefur verið haldið þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert