Gísli og Berglind fögnuðu sigri

Berglind og Gísli með sigurlaunin í dag.
Berglind og Gísli með sigurlaunin í dag. Ljósmynd/GSÍ

Gísli Sveinbergsson úr Keili og Berglind Björnsdóttir úr GR fögnuðu sigri á Íslandsmótinu í holukeppni á Eimskipsmótaröðinni. Þetta eru fyrstu Íslandsmeistaratitlar þeirra í þessari keppni.

Gísli lagði Aron Snæ Júlíusson úr GKG í úrslitaleiknum 4/3 en góð byrjun Gísla lagði grunninn að sigrinum. Andri Már Óskarsson úr GHR sigraði Theodór Emil Karlsson úr GM í leik um þriðja sætið 5/4.

Berglind sigraði Ragnhildi Kristinsdóttur úr GR í úrslitaleiknum 2/1. Ingunn Einarsdóttir úr GKG sigraði Signý Arnórsdóttur úr GK í leik um þriðja sætið 2/1.

„Þetta er í fyrsta sinn sem ég vinn mót á Eimskipsmótaröðinni og þetta er því góður og mikilvægur áfangi fyrir mig 18 ára gamlan,“ sagði Gísli Sveinbergsson við GSÍ eftir að hafa tryggt sér sigurinn.

Berglind var sömuleiðis alsæl með sigurinn í dag. „Ég hef lengi unnið að þessu markmiði og núna tókst það loksins. Ég hef alltaf verið þolinmóð og æft mikið en það hefur ekki alltaf gengið upp. Núna fóru púttin sem ég hef verið að æfa mikið að detta ofan í og það skilaði árangri. Það var kominn tími á þetta hjá mér. Lokaleikurinn gegn Ragnhildi var mjög skemmtilegur og ég þurfti að gera mitt allra besta til þess að komast svona langt. Ég vona að ég fái að geyma bikarinn heima næsta árið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert