Ólafía fékk frábærar móttökur

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, fékk frábærar móttökur í golfskálanum í Grafarholti í kvöld, en hún var fyrst allra íslenskra kylfinga til þess að tryggja sig inn á sterkustu mótaröð heims, LPGA-mótaröðina.

Ólafía vann sér inn keppnirétt á mótaröðina með því að lenda í öðru sæti í síðasta úrtökumótinu sem fór fram í Daytona Beach í Flórída. Hún lék á samtals tólf höggum undir pari og varð þar með fyrsti Íslendingurinn til þess að vera í hópi þeirra bestu.

Golfklúbbur Reykjavíkur, Golfsamband Íslands og Forskot afrekssjóður ákváðu í sameiningu að heiðra Ólafíu með því að taka á móti henni í golfskálanum í Grafarholti í kvöld en fjölmiðlar mættu einnig á svæðið til þess að mynda þennan viðburð.

Eggert Jóhannesson, ljósmyndari Morgunblaðsins, var mættur í golfskálann til þess að smella myndum af móttökunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert