„Reyndi eins og ég gat að auglýsa Ísland í tætlur“

Ólafía Þórunn
Ólafía Þórunn Ljósmynd/ladieseuropeantour.com

„Ég hef bætt mig mjög mikið. Mér fannst ótrúlegt að komast í gegnum úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina fyrir ári en svo gerðist það aftur núna í Bandaríkjunum,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, í samtali við Morgunblaðið eftir komuna til landsins.

Fyrir utan það magnaða afrek að ná einu af þeim tuttugu sætum sem í boði voru í úrtökumótunum, og mörg hundruð kylfingar börðust um, hefur Ólafía aldrei farið jafn mörg högg undir pari í móti eins og hún gerði á Flórída. Ólafía lauk leik á 13 höggum undir pari en reyndar eru spilaðir fimm hringir í úrtökumótinu og því er það ekki fullkomlega samanburðarhæft við önnur mót sem Ólafía hefur tekið þátt í. Ólafía hefur leikið gríðarlega vel í hálft ár, en hún setti mótsmet á Íslandsmótinu á Akureyri í júli. Enginn hefur farið jafn langt undir parið á Íslandsmóti og hún gerði þá, hvort sem horft er til karla- eða kvennaflokks.

Besta skorið á Íslandsmótinu

„Ég spilaði gríðarlega vel á Íslandsmótinu en það var samt aldrei neitt þvingað. Þá púttaði ég mjög vel og gerði það aftur núna en það hef ég einnig gert á æfingasvæðinu og þetta er því ekki heppni þegar ég er komin út á völl. En svo getur golfið verið þannig að stundum vantar bara millimetra upp á í púttunum. Skorið á Íslandsmótinu var besta skor mitt frá upphafi og nú er þetta besta skor mitt en úrtökumótið var fimm hringir. Mér tókst að vera mjög stöðug í mótinu og fékk aldrei verra skor á holu en skolla. Það finnst mér geggjað en ég áttaði mig reyndar ekki á því fyrr en að mótinu loknu. Ég var ekki einu sinni nálægt því að fá skramba. Ég var meira í því að pútta fyrir fuglum og ef ég hitti ekki flöt í tilskildum höggafjölda var ég bara rétt fyrir utan flöt,“ sagði Ólafía.

Japanir sýndu áhuga

Ólafía segist hafa orðið vör við nokkra athygli á keppnisstaðnum eftir að keppnisrétturinn fyrir næsta ár var í höfn.

„Jú, jú, og athyglin var meiri en ég bjóst við. Ég fór í viðtöl hjá ESPN og japanskri sjónvarpsstöð sem dæmi, fyrir utan þá miðla sem LPGA heldur úti. Fjölmiðlamenn og aðrir vildu fá að vita mikið um Ísland og sýndu landinu mikinn áhuga. Ég reyndi bara eins og ég gat að auglýsa Ísland í tætlur. Þessi áhugi á Íslandi er skemmtilegur og hann hjálpar mér, því að fólk er greinilega spennt fyrir því að fá Íslending inn á mótaröðina. Ég hef fengið pósta og tíst (á Twitter) frá alls kyns fólki úti í Ameríku sem ég þekki ekki neitt. Hafa það verið bara góðar kveðjur og fólk segist spennt fyrir því að sjá Íslending keppa á LPGA,“ benti Ólafía á.

Viðtalið við Ólafíu í heild sinni er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert