Birgir Leifur og Ólafía Þórunn kylfingar ársins

Birgir Leifur Hafþórsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistarar í höggleik …
Birgir Leifur Hafþórsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Íslandsmeistarar í höggleik 2016.

Golfsamband Íslands hefur valið kylfinga ársins 2016. Þeir eru Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) og Birgir Leifur Hafþórsson (GKG). Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu.

Ólafía Þórunn náði besta árangri sem íslenskur kylfingur hefur náð á árinu 2016. Hún tryggði sér keppnisrétt á LPGA atvinnumótaröðinni í Bandaríkjunum með eftirminnilegum hætti í byrjun desember. Ólafía fór í gegnum öll þrjú stig úrtökumótsins og endaði í öðru sæti á lokaúrtökumótinu en 20 efstu tryggðu sér keppnisrétt á LPGA á næsta tímabili sem hefst í janúar á Bahamas.

Ólafía lék á sínu fyrsta tímabili á LET Evrópumótaröðinni á þessu ári. Hún endaði í 96. sæti á stigalistanum í lok tímabilsins en besti árangur hennar var 16. sæti í Tékklandi. Árangur hennar á fyrstu tveimur keppnisdögunum á Abu Dhabi vakti mikla athygli en þar var Ólafí í efsta sæti fyrstu tvo keppnisdagana, en það hefur aldrei gerst hjá íslenskum keppenda á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafía varð Íslandsmeistari í golfi í þriðja sinn á ferlinum á Jaðarsvelli á Akureyri í júlí. Þar skrifaði hún nýjan kafla í golfsöguna með því að vera á besta samanlagða skorinu af öllum keppendum Íslandsmótsins. Ólafía lék á -11 samtals og Valdís Þóra Jónsdóttir var á -10 samtals. Ólafía Þórunn hefur lagt mikið á sig á undanförnum misserum til þess að ná markmiðum sínum. Hún er frábær fyrirmynd og dugnaður hennar hefur vakið verðskuldaða athygli.

Birgir Leifur Hafþórsson bætti met á Íslandsmótinu í golfi sem staðið hafði lengi. Hann varð fyrsti kylfingurinn til þess að fagna Íslandsmeistaratitlinum í sjöunda sinn. Áður hafði Birgir Leifur deilt því meti en Björgvin Þorsteinsson og Úlfar Jónsson sigruðu sex sinnum á Íslandsmótinu.

Birgir er eini íslenski kylfingurinn sem hefur náð inn á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu í karlaflokki en hann er með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni í Evrópu, sem er sú næst sterkasta í Evrópu. Á þessu ári lék Birgir Leifur á níu mótum á Áskorendamótaröðinni. Hann endaði í 96. sæti á stigalistanum og er með ágæta stöðu fyrir næsta tímabil hvað fjölda móta varðar. Besti árangur hans á tímabili var 6. sæti og hann varð einnig í 12. sæti.

Birgir Leifur er öðrum íþróttamönnum mikil fyrirmynd hvað varðar þolinmæði og þrautseigju. Hann er eini kylfingurinn sem hefur sigrað á Íslandsmótinu í golfi með tveggja áratuga millibili.

Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert