Með lag eftir Jón Jónsson á heilanum

Ólafía púttar á Bahamaeyjum.
Ólafía púttar á Bahamaeyjum. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék lokahringinn á sínu fyrsta LPGA-móti á tveimur höggum undir pari. Hún var ánægð að lokinni frumraun sinni á þessari sterkustu atvinnumótaröð í golfi kvenna en hún hafnaði í 69. - 72. sæti.

„Þetta var venjulegur dagur hjá mér miðað við það sem var í gangi í gær. Mér leið vel þegar ég vaknaði í morgun og ég vissi að þetta yrði allt öðruvísi en á þriðja hringnum,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir við golf.is rétt eftir að hún lauk leik á Ocean vellinum á Bahama-eyjum.

Ólafía Þórunn lék þriðja hringinn á 77 höggum en lét það ekki hafa áhrif á sig í dag. Hún lék lokahringinn á 71 höggi eða -2 og endaði hún í 69.-72. sæti á -5 samtals (71-68-77-71). Aðstæður á Ocean vellinum voru nokkuð krefjandi í dag en mikið rok var eftir hádegi og um tíma duttu nokkrir regndropar á keppendur.

„Ég var með lag á heilanum á öllum hringnum eftir Jón Jónsson, Your Day, og það má þakka Thomas Bojanowski kærastanum mínum og aðstoðarmanni mínum í þessu móti fyrir það lagaval. Gott sálfræðitrix hjá honum,“ bætti Ólafía við.

Ég hlakka til að takast á við næsta verkefni í Ástralíu og ég lærði helling af þessu móti. Ég fór aðeins að efast um sjálfa mig á þriðja hringnum en það er frábært að leika þrjá hringi af fjórum undir pari – ég tek það með mér í framhaldið.

Viðtalið í heild sinni á golf.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert