Ólafía leggur seint af stað í dag

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Kylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir leggur seint af stað á öðrum hring Founders-meistaramótsins í golfi sem fram fer í Phoenix í Bandaríkjunum, en það er þriðja mótið sem hún tekur þátt í á LPGA-mótaröðinni; sterkustu kvennamótaröð í heimi.

Ólafía byrjaði mótið mjög vel í gær og lék fyrsta hringinn á þremur höggum undir pari. Hún fékk þá meðal annars sinn fyrsta örn á mótaröðinni. Hún fór meðal fyrstu kylfinga af stað í gær, en er seinna á ferð í dag.

Ólafía á rástíma klukkan 12.23 að hádegi að staðartíma, eða klukkan 19.23 að íslenskum tíma. Hún er jöfn fleiri kylfingum í 46. sæti á þremur höggum undir pari, en efstu kylfingar eru á átta höggum undir pari.

Michelle Wie, einn þekktasti kvenkylfingur sögunnar, er með Ólafíu í ráshóp og hún spilaði fyrsta hringinn á sjö höggum undir pari og er einu höggi frá efstu kylfingum. Cheyenne Woods, sú þriðja í ráshópnum, er hins vegar á þremur höggum yfir pari.

Mbl.is fylgist grannt með Ólafíu og fylgist með henni í beinni textalýsingu þegar hringurinn hefst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert