Sögulegur sigur hjá Spieth

Jordan Spieth fagnar sigrinum í dag.
Jordan Spieth fagnar sigrinum í dag. AFP

Bandaríski kylfingurinn Jordan Spieth skráði nafn sitt enn frekar í sögubækurnar með sigri sínum á Opna meistaramótinu í golfi, The Open, en mótið fór fram á Royal Birk­dale-golf­vell­in­um í norðvest­urhluta Eng­lands.

Um þriðja risatitilinn hjá Spieth er að ræða á ferlinum en hann vann Opna bandaríska og PGA-meistaramótið árið 2015.

Spieth lauk leik á 12 höggum undir pari og lauk leik með stæl en á síðustu fjórum holunum fékk Spieth þrjá fugla og einn örn.

Spieth var í frábærri stöðu fyrir daginn í dag og hafði þriggja högga forskot á samlanda sinn Matt Kuchar fyrir daginn. Hann gerði sér hins vegar erfitt fyrir á lokahringnum með þremur skollum á fyrstu fjórum holunum og var þá strax orðinn jafn Kuchar.

Mótið í fyrra, þar sem Spieth tapaði niður fimm högga forskoti á síðustu níu holunum, hjálpaði hinum 23 ára Texasbúa ekki. Hann sýndi hins vegar hvers hann er megnugur og tryggði sér sögulegan titil.

Titillinn var sá þriðji hjá Spieth sem gerir hann að yngsta sigurvegara Opna meistaramótsins í 38 ár eða síðan Spán­verj­inn Seve Bal­lesteros vann mótið á Royal Lytham & St. Annes, 22 ára gam­all árið 1979.

Þá varð hann annar kylfingurinn í sögunni á eftir Jack Nicklaus til þess að vinna þrjú risamót fyrir 24 ára aldurinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert