Ólafía á réttri leið

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur hefur með árangri sínum á árinu tryggt sér takmarkaðan keppnisrétt á LPGA-mótaröðinni á næsta ári. Ólafía er með fullan keppnisrétt á þessu ári eftir að hafa komist í gegnum úrtökumótin seint á síðasta ári. Atvinnumennska í golfi er hins vegar harður heimur og keppnisrétturinn einungis til eins árs í senn. Slíkt breytist hins vegar þegar kylfingum tekst að vinna mót og þurfa þeir þá ekki að hafa áhyggjur af keppnisréttinum í nokkur ár.

100 efstu kylfingarnir á peningalista mótaraðarinnar í lok keppnistímabilsins fá fullan keppnisrétt á næsta ári. Næstu 25 fá takmarkaðan keppnisrétt og fara beint á lokaúrtökumótið og geta þar náð sér í fullan keppnisrétt líkt og Ólafía gerði.

„Ég er í ágætum málum eins og er vegna þess að verðlaunaféð sem ég hef unnið mér inn það sem af er árinu er svipað og kylfingar sem fengu takmarkaðan keppnisrétt í ár náðu allt árið í fyrra. Ég er því í rauninni búin að tryggja mér einhvern keppnisrétt á næsta ári og get því bara bætt við það á þeim mótum sem eftir eru,“ sagði Ólafía þegar Morgunblaðið spurði hana út í gang mála.

Hún er sem stendur í 106. sæti listans og hefur unnið sér inn rúmlega 65 þúsund dollara. Takist Ólafíu að leika vel á þeim mótum sem eftir eru á hún því góða möguleika á að vera á meðal 100 efstu í lok tímabilsins. Verðlaunafé í hverju móti fyrir sig dreifist á milli þeirra kylfinga sem komast í gegnum niðurskurð keppenda þegar mótin eru hálfnuð. Takmarkaður keppnisréttur felur í sér að þá á kylfingurinn rétt á að taka þátt í einhverjum mótum á mótaröðinni.

Nánar er rætt við Ólafíu í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert