Munaði einu höggi í lokin

Xander Schauffele og Maya eiginkona hans með bikarinn glæsilega í …
Xander Schauffele og Maya eiginkona hans með bikarinn glæsilega í Louisville í kvöld. AFP/Andy Lyons

Bandaríkjamaðurinn Xander Schauffele tryggði sér í kvöld sigur á PGA-meistaramótinu í golfi á Valhalla-vellinum í Kentucky í Bandaríkjunum eftir æsispennandi lokahring og einvígi við landa sinn Bryson DeChambeau.

Schauffele lauk keppni á 21 höggi undir pari eftir að hafa leikið lokahringinn á 65 höggum, sex undir pari vallarins.

DeChambeau átti enn betri lokahring, lék hann á 64 höggum, en það var ekki nóg til að skáka Schauffele sem var með forystu frá fyrsta hringnum á fimmtudag. DeChambeau endaði einu höggi á eftir honum, á 20 undir pari.

Norðmaðurinn Viktor Hovland varð þriðji á 18 höggum undir pari en hann lék lokahringinn á 66 höggum.

Thomas Detry frá Belgíu og Colin Morikawa frá Bandaríkjunum deildu fjórða sætinu á 15 höggum undir pari, Shane Lowry frá Írlandi og Justin Rose frá Englandi léku á 14 undir pari, og Scottie Scheffler kom næstur ásamt þremur öðrum á 13 höggum undir pari.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert