Haukar á toppinn eftir sigur í Hafnarfjarðarslag

Ólafur Guðmundsson og Gunnar Berg Viktorsson, leikmaður Hauka, mætast á …
Ólafur Guðmundsson og Gunnar Berg Viktorsson, leikmaður Hauka, mætast á Ásvöllum í dag. Ómar Óskarsson

Haukar tylltu sér á topp N1-deildar karla í handknattleik með sigri á sveitungum sínum í FH, 29:26, í kaflaskiptum leik á heimavelli Hauka á Ásvöllum. Íslandsmeistarar Hauka eru því einir á toppnum og um leið eina taplausa lið deildarinnar  þegar fjórar umferðir eru að baki í deildinni. FH var þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11.

Eftir að FH hafði verið betra í fyrri hálfleik þá snéru Haukar taflinu við í síðari hálfleik. Þeir léku flottan varnarleik, Birkir Ívar Guðmundsson tók að verja í markinu og sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél. FH-ingar náðu aldrei upp sama krafti í leik sinn í síðari hálfleik og eftir að Haukar komust yfir á 40. mínútu var eins og FH-liðið missti aðeins móðinn.

Mörk Hauka: Björgvin Hólmgeirsson 8, Freyr Brynjarsson 8, Sigurbergur Sveinsson 7/4, Einar Örn Jónsson 2, Pétur Pálsson 2, Elías Már Halldórsson 1, Guðmundur Árni Ólafsson 1.
Varin skot: Birkir Ívar Guðmundsson 15 (þar af 5 til mótherja).
Utan vallar: 12 mínútur.

Mörk FH: Ólafur Guðmundsson 7, Bjarni Fritzson 6/1, Jón Heiðar Gunnarsson 4, Ólafur Gústafsson 4, Ásbjörn Friðriksson 2, Benedikt Kristinsson 1, Sigurgeir Árni Ægisson 1, Örn Ingi Bjarkason 1.
Varin skot: Pálmar Pétursson 18 (þaraf 8 til mótherja). Daníel Andrésson 2.
Utan vallar: 4 mínútur.

50. Leikmönnum Hauka hefur gengið allt í hag síðustu mínútur á meðan sóknarleikur FH er ráðleysislegur og flumbrugangur á tíðum mikill. Þá munar miklu að Haukar hafa náð að mestu að halda Ólafi Guðmundssyni niðri. Staðan, 23:20, Haukum í hag.

40. Haukar voru að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum, 18:17, með marki Björgvins Hólmgeirssonar. Sóknarleikur FH hefur verið í molum síðustu mínútur þar sem mikið hefur verið um slakar sendingar. Haukarnir eru mun ákveðnari í upphafi síðari hálfleik en í fyrri hálfleik.

30. Flautað hefur verið til loka fyrri hálfleiks. Eftir góða byrjun FH í leiknum tókst Haukum að jafna metin, 9:9, og aftur 10:10. Síðustu mínútur fyrri hálfleiks voru FH-inga sem m.a. fengu tvö hraðaupphlaup sem gáfu þeim forskot á nýjan leik. FH var skrefi undan allan fyrri hálfleik og þrátt fyrir þokkalega vörn Hauka lengst af hefur markvarslan ekki verið neitt sérstök. Pálmar Pétursson hefur hins vegar varið vel í marki FH.
Björgvin Hólmgeirsson og Sigurbergur Sveinsson hafa skorað þrjú mörk hvor fyrir Hauka. Bjarni Fritzson hefur skorað í fimm skipti fyrir FH og Ólafur Guðmundsson þrisvar.

20. Haukar hafa bitið frá sér síðustu mínútur og náð að jafna leikinn. Það er ekki síst að þakka bættum varnarleik sem FH-ingar hafa ekki átt nein svör við. Staðan jöfn, 9:9.

10. FH-ingar hafa byrjað leikinn mun betur. Nafnarnir Ólafur Guðmundsson og Gústafsson hafa skorað fimm af fyrstu sex mörkum FH-inga. Haukar eru sem stendur tveimur mönnum færri og þremur mörkum undir, 7:4.

Þegar stundarfjórðungur er þar til leikurinn hefst hefur drifið all nokkuð stóran hóps fólks að hér á Ásvelli. Ljóst er að stemningin verður góð.

Bjarki Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í handknattleik, er í liði FH í dag en hann gekk til liðs við félagið á dögunum. Sonur hans, Örn Ingi, er einnig í liði FH í dag, en 23 ára aldursmunur er á þeim feðgum.

Dómarar leiksins: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert