Sigur á Val tryggði FH sæti í deildabikarnum

Bjarni Fritzson, FH og Elvar Friðriksson Val eru lykilmenn í …
Bjarni Fritzson, FH og Elvar Friðriksson Val eru lykilmenn í sínum liðum. mbl.is/Ómar

FH-ingar tryggðu sér sæti í deildabikarnum í handknattleik karla með sigri á Val 23:20 þegar liðin mættust á Hlíðarenda í dag. Með sigrinum tókst FH að tryggja sér eitt af fjórum efstu sætunum í deildinni að 9 umferðum loknum en þeir eru með 11 stig eins og Valur og Akureyri en Haukar eru á toppnum með 14 stig. Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is.

Arnór Gunnarsson skoraði 5 mörk fyrir Val og Elvar Friðriksson 4. 

Örn Ingi Bjarkason gerði 5 mörk fyrir FH rétt eins og Bjarni Fritzson. 

60. mín: LEIK LOKIÐ: FH-ingar sigruðu 23:20 og hafa því væntanlega tryggt sér sæti í deildabikarnum með því að vera í einu af efstu fjórum sætunum fyrir jól. 

56. mín: Staðan er 17:19 fyrir FH. Gestirnir hafa bætt við tveimur mörkum til viðbótar og hafa því skorað 4 mörk í röð. Skyndilega eiga þeir alla möguleika á því að fara með bæði stigin til Hafnafjarðar.

52. mín: Staðan er 17:17. FH-ingum hefur tekist að jafna leikinn með því að skora tvö mörk í röð. Leikurinn er galopinn á ný. 

47. mín: Staðan er 16:14 fyrir Val. Bikarmeistararnir eru mun líklegri þessa stundina til þess að tryggja sér sigurinn.  Varnarleikur þeirra er góður í síðari hálfleik og FH-inga eru í vandræðum í sókninni.

36. mín: Staðan er 12:11 fyrir Val. Arnór Gunnarsson kom Val yfir með marki úr hraðaupphlaupi þrátt fyrir að Valsmenn væru leikmanni færri inni á vellinum. 

30. mín: Staðan er 9:10 fyrir FH að loknum fyrri hálfleik. Bjarni fór inn úr hægra horninu og skoraði rétt fyrir lok hálfleiksins. Hans 4 mark í leiknum og er hann markahæstur á vellinum. Markahæstur Valsmanna er Elvar Friðriksson með 3 mörk. Hlynur Morthens hefur varið 10 skot í marki Vals og Pálmar Pétursson fyrrum leikmaður Vals hefur varið 7/1 skot í marki FH.

22. mín: Staðan er 7:7. Bjarni Fritzson var að jafna fyrir FH úr vítakasti sem gamli maðurinn Bjarki Sigurðsson fiskaði. Bjarki var nýkominn inn á og reiddist Gunnari Inga Jóhannssyni mjög sem setti mjöðmina í Bjarka þegar hann braut á honum. 

17. mín: Staðan er 6:4 fyrir Val. Hlynur Morthens hefur byrjað ljómandi vel í marki Vals og hefur varið 7 skot nú þegar enda með öfluga framliggjandi vörn fyrir framan sig.

10. mín: Staðan er 3:2 fyrir Val. Varnarleikur liðanna er með ágætum til þess að byrja með og leikmenn liðanna eiga í basli með að skapa sér góð marktækifæri.

5. mín: Staðan er 1:0 fyrir Val. Orri Freyr Gíslason skoraði fyrsta mark leiksins af línunni. Svo virðist sem annar dómarinn, Ingvar Guðjónsson hafi ekki getað dæmt eins og fyrirhugað var. Í hans stað er Anton Pálsson mættur til leiks og dæmir með Jónasi Elíassyni.

0.mín:   Margrét Magnúsdóttir þjálfari 5. flokks kvenna í knattspyrnu hjá Val var kölluð út á golf fyrir leik og henni afhentur Magnúsarbikarinn fyrir árið 2009. Viðurkenningin er til minningar um Magnús Blöndal Sigurbjörnsson sem lést úr krabbameini aðeins 24 ára gamall. 20 ár eru liðin frá því að Magnús lést en hann þjálfaði hjá Val og er Margrét sú fyrsta sem hlýtur Magnúsarbikarinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert