Góður sigur á Þjóðverjum

Ólafur Stefánsson og Vignir Svavarsson á æfingu landsliðsins í Vodafone-höllinni.
Ólafur Stefánsson og Vignir Svavarsson á æfingu landsliðsins í Vodafone-höllinni. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik lagði Þjóðverja 32:28 í vináttulandsleik í Nürnberg í Þýskalandi í dag. Staðan í leikhléi var 16:14 fyrir Þjóðverja en íslenska liðið lék virkilega vel í síðari hálfleiknum og uppskar sanngjarnan sigur.

Liðin mætast aftur á morgun klukkan 14 og þá verður leikið í Regensburg.

Markahæstir: Ólafur Stefánsson 10/6, Snorri Steinn Guðjónsson 5/1, Arnór Atlason 4.

32:28 Björgvin Páll gerði síðasta markið með skoti úr eigin vítateig eftir að hafa varið skot frá þýsku sókninni.

28:26 Fimm mínútur eftir. Íslenska liðið var tveimur leikmönnum færra í rúma mínútu áðan en það kom ekki að sök.

25:24 Tíu mínútur eftir og íslenska liðið virðist vera á fínu róli.

21:21 Síðari hálfleikur hálfnaður og  íslenska liðið byrjað að skora úr hraðaupphlaupum, sem ekki sáust í fyrri hálfleik. En tvö mörk í röð komin úr slíkum sóknum.

18:20 Tíu mínútur búnar af seinni hálfleik og allt við það sama.

16:20 Fimm mínútur búnar af síðari hálfleik og Þjóðverjar búnir að gera fjögur mörk gegn tveimur.

14:16 Kominn hálfleikur. Ólafur með fimm mörk, Arnór 3, Róbert 2, Snorri Steinn 2, Guðjón Valur 1 og Aron 1. Björgvin Páll er búinn að verja 11 skot.

12:14 Fimm mínútur eftir af fyrri hálfleik og heldur að lagast leikur íslenska liðsins, sem er mjög þolinmótt og leikur vel þessa stundina.

9:14 Þjóðverjar fara á kostum núna og hafa gert átta mörk gegn einu á síðustu mínútum. Þeir eru snöggir í hraðaupphlaupunum og Liechtlein er búinn að verja mjög vel í markinu.

8:9 Þýskir tóku leikhlé og gerði næstu þrjú mörk og Ingimundur er utan vallar í tvær mínútur í annað sinn.

8:6 Eftir korter, þegar fyrri hálfleikur er hálfnaður, er staðan nokkuð vænleg og leikur liðsins ágætur. Reyndar er sóknarleikur heimamanna nokkuð brokkgengur, sérstaklega ef íslenska liðið nær að stilla upp.

5:4 Þjóðverjar gerðu fyrstu tvö mörkin en eftir níu mínútna leik hefur Íslands eins marks forystu 5:4. Ólafur Stefánsson með tvö mörk, Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason eitt hver. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert