Fimm marka tap í Austurríki

Arnór Atlason í skotstöðu í leiknum gegn Austurríki á EM …
Arnór Atlason í skotstöðu í leiknum gegn Austurríki á EM í janúar. Kristinn Ingvarsson

Íslenska landsliðið í handknattleik karla tapaði, 28:23, fyrir Austurríkismönnum í undankeppni Evrópumótsins í Wiener Neustadt í Austurríki í kvöld. Austurríska liðið var betra allan leikinn og var marki yfir í hálfleik, 12:11. Sóknarleikurinn brást íslenska liðinu í leiknum auk þess sem markvarslan var engin á sama tíma og markvörður heimamanna fór hamförum.

60. Eftir að þrír möguleikar á að minnka forskot Austurríkis niður í tvö mörk í stöðunni, 24:21, fóru í súginn benti fátt til þess að íslenska liðið gæti komið í veg fyrir ósigur. Góð marktækifæri fóru forgörðum gegn sterkum markverði Austurríkismanna, Nikola Marinovic, auk þess sem íslenska liðið fékk á sig hvert markið á fætur öðru þar sem vart var merkjanlega markvörslu hjá íslensku markvörðunum.

Í heild slakur sóknarleikur og léleg nýting opinna færa auk slakrar markvörslu voru þau atriði fyrst og fremst sem felldi íslenska liðið að þessu sinni.  Sennilega slakasta frammistaða íslenska landsliðsins síðan það tapaði fyrir Makedóníu í Skopje í undankeppni heimsmeistaramótsins í júní 2008.

Mörk Íslands: Ólafur Stefánsson 11/7, Alexander Petersson 3, Arnór Atlason 2, Ásgeir Örn Hallgrímsson 2, Oddur Gretarsson 2, Róbert Gunnarsson 2, Snorri Steinn Guðjónsson 1.
Varin skot: Hreiðar Levy Guðmundsson 8 (þaraf 1 til mótherja). Björgvin Páll Gústavsson ekkert.
Utan vallar: 12 mínútur.
Mörk Austurríkis: Viktor Szilagyi 7, Janko Bozovic 5, Robert Weber 4, Roland Schlinger 4, Bernd Friede 3, Konrad Wilczynski 3/1, Patrick Fölser 2.
Varin skot: Nikola Marinovic 21/2 (þaraf 7 til mótherja).
Utan vallar: 16 mínútur.

52. Síðustu mínútur hafa verið fínar hjá íslenska liðinu sem hefur minnkað muninn í þrjú mörk, 24:21. Þrjár sóknir hafa gefist til að minnka forystu Austurríkismanna í tvö mörk en báðar runnið út í sandinn, síðast varði Marinovic vítakast frá Ólafi. 

43. Allt hefur gengið á afturlöppunum síðustu mínútur hjá íslenska liðinu. Nikola Marinovic, markvörður Austurríkismanna, hefur farið á kostum. Á sama tíma er verja markverðir íslenska liðsins ekkert. Staðan er nú 21:16 og Guðmundur hefur tekið leikhlé.

36. Austurríska liðið hefur skorað tvö mörk í röð þótt það sé manni færra en það íslenska.  Staðan er 16:13 fyrir heimamenn. 

33. Austurríkismenn byrja síðari hálfleik betur. Þeir eru tveimur mörkum yfir, 14:12, og eru í sókn.

30. Fyrri hálfleik er lokið og Austurríki er marki yfir, 12:11. Róbert minnkaði muninn 15 sekúndum áður en tíminn rann úr. Heimamenn náðu sókn en Hreiðar varði skot úr aukakasti í blálokin, skot sem hafði viðkomu í vörninni.
Fyrri hálfleikur hefur ekki verið skemmtilegur á að horfa. Mikið um átök og leikmenn verið utan vallar í 16 mínútur. Austurríkismenn reyna að halda hraðanum niðri. Þeir leika langar sóknir og berjast af hörku í vörninni. Íslenska liðið hefur ekki náð sér á strik í sókninni og vinstri vængurinn hefur á köflum ekkert verið með.
Á 25. mínútu varð íslenska liðið fyrir áfalli þegar Alexander Petersson meiddist á hægri ökkla þegar hann steig á ristina á Austurríkismanni þegar hann var að fara inn úr hægra horninu. Þetta leit ekki vel út og frekar ósennilegt að hann komi meira við sögu.
Íslenska liðið hefur alltaf verið undir að því undanskildu að það skoraði fyrsta mark leiksins.
Ólafur hefur skorað sex mörk, þar af þrjú úr vítakasti, Alexander þrjú og Róbert tvö.
Hreiðar hefur varið fjögur skot í markinu en Björgvin Páll sem lék fyrstu tíu mínúturnar náði ekki að verja skot á þeim tíma.

24. Guðmundur þjálfari tekur leikhlé. Staðan er 11:9 fyrir Austurríki sem verður manni færra næstu mínútu. 

22. Íslenska liðið hefur sótt í sig veðrið síðustu mínútur. Vörnin hefur batnað nokkuð og það hefur skilað sér. Staðan er 9:8 fyrir heimamenn.

17. Síðustu mínútur hafa verið íslenska liðinu erfiðar. Austurríkismenn skoruðu fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni úr 4:4, í 8:4. Á þessum kafla voru Íslendingar í tvígang einum fleiri. Staðan er 8:5.

6. Austurríkismenn byrja betur og eru yfir, 3:2. Þeir eru manni færri. Ólafur skoraði úr vítakasti annað mark Íslands eftir að Austurríki komst yfir, 3:1.

2. Alexander skoraði fyrsta mark leiksins fyrir Íslands úr hægra horninu úr fyrstu sókn Íslands. 

Íslenska liðið: Björgvin Páll Gústavsson, Hreiðar Levy Guðmundsson, Hannes Jón Jónsson, Oddur Gretarsson, Arnór Atlason, Sigurbergur Sveinsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Aron Pálmarsson, Ólafur Stefánsson, Ásgeir Örn Hallgrímsson, Alexander Petersson, Ingimundur Ingimundarson, Sverre Jakobsson, Róbert Gunnarsson og Vignir Svavarsson.

Íþróttahöllin er þéttsetin og ljóst að heimamenn munu frá frábæran stuðning í leiknum. 

Dómarar leiksins í dag eru spænskir, Jose Gregorio Muro San og Alfonso  Rodriquez Murcia.

Síðasta þegar þjóðirnar leiddu saman hesta sína í handknattleik karla skildu þær jafna, 37:37. Þá skoruðu Austurríkismenn þrjú síðustu mörkin á síðustu mínútu leiksins.  Þessi leikur fór fram i Linz fimmtudaginn 21. janúar og var hluti af Evrópumeistaramótinu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka