Tíu marka tap í fyrsta leik

Stella Sigurðardóttir reynir að komast í gegnum vörn Svartfelllinga í …
Stella Sigurðardóttir reynir að komast í gegnum vörn Svartfelllinga í leiknum í dag. Ljósmynd/Seba Tataru

Stelpurnar okkar í íslenska kvennalandsliðinu í handbolta steinlágu gegn Svartfjallalandi, 26:16, í fyrsta leiknum á EM í Serbíu en munurinn í hálfleik var þrjú mörk, 10:7.

Íslensku stelpurnar héldu í við Svartfjallaland til að byrja með en þær spiluðu ágætan varnarleik og þá átti Guðný Jenný Ásmundsdóttir stórleik í markinu.

Sóknarleikurinn var aftur á móti ekki nægilega góður og vantaði að nýta þau tækifæri sem opnuðust, sérstaklega línuspilið.

Svartfellingar skoruðu fjögur fyrstu mörk síðari hálfleiks og komust í 15:7 áður en Rakel Dögg Bragadóttir skoraði fyrsta mark Íslands eftir rúmlega átta mínútna leik, 15:8.

Svartfjallaland fékk mörg auðveld mörk úr hraðaupphlaupum þar sem sóknarleikur Íslands gekk svo illa og markvörður liðsins, Marina Vukcevic, varði hvert skotið á fætur öðru.

Þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn orðinn átta mörk, 21:13, og mestur varð hann ellefu mörk, 25:14. Tíu marka tap var staðreyndin á endanum, 26:16.

Varnarleikur Íslands var ágætur í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik en þá skoruðu Svartfellingar bara tíu mörk. Sóknarleikurinn varð Íslandi að falli í dag og verður að skerpa verulega á honum fyrir morgundaginn.

Rakel Dögg Bragadóttir byrjaði á bekknum en kom sterk inn og skoraði fimm mörk auk þess sem innkoma hennar styrkti varnarleikinn. Skytturnar áttu í mesta basli með að skjóta fyrir utan en Stella, Rut og Hildur skoruðu samtals fjögur mörk úr 18 skotum.

Guðný Jenný Ásmundsdóttir bar af í íslenska liðinu en hún varði 19 skot, mörg hver úr dauðafærum, og þar af eitt víti.

Mörk Íslands: Rakel Dögg Bragadóttir 5, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Arna Sif Pálsdóttir 2, Rut Jónsdóttir 2, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir 1, Hildur Þorgeirsdóttir 1, Karen Knútsdóttir 1, Stella Sigurðardóttir 1.
Varin skot: Guðný Jenný Ásmundsdóttir 19/1. 

Lið Íslands: 1 Guðný Jenný Ásmundsdóttir, 30 Dröfn Haraldsdóttir -- 2 Karen Knútsdóttir, 3 Arna Sif Pálsdóttir, 4 Þórey Rósa Stefánsdóttir, 5 Rut Jónsdóttir, 7 Rakel Dögg Bragadaóttir, 8 Stella Sigurðardóttir, 9 Dagný Skúladóttir, 13 Ásta Birna Gunnarsdóttir, 14 Hrafnhildur Skúladóttir, 15 Hanna G. Stefánsdóttir, 17 Anna Úrsúla Guðmundsdóttir, 20 Jóna Margrét Ragnarsdóttir, 21 Hildur Þorgeirsdóttir, 22 Ramune Pekarskyte.

Lið Svartfjallalands: 1 Marina Vukcevic, 12 Sonja Barjaktarovic -- 2 Radmila Miljanic, 3 Biljana Pavicevic, 4 Jovanka Radicevic, 5 Ana Dokic, 8 Marija Jovanovic, 10 Andjela Bulatovic, 15 Andrea Klikovac, 19 Sara Vukcevic, 20 Jasna Toskovic, 25 Sandra Nikcevic, 26 Suzana Lazovic, 32 Katarina Bulatovic, 77 Majda Mehmedovic, 90 Milena Knezevic.

Ísland 16:26 Svartfjallaland opna loka
60. mín. Svartfjallaland fékk 2 mínútur
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert