Ágúst Þór hættur hjá SönderjyskE

Ágúst Þór Jóhannsson er hættur störfum hjá danska úrvalsdeildarliðinu SönderjyskE.
Ágúst Þór Jóhannsson er hættur störfum hjá danska úrvalsdeildarliðinu SönderjyskE. Árni Sæberg

Ágúst Þór Jóhannsson er hættur sem þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins í handknattleik kvenna SönderjyskE. Hann tilkynnti leikmönnum þetta á fundi sem varð ljúka. „Það varð að samkomulagi milli mín og stjórnarinnar að ég hætti núna og annar tæki við þjálfun liðsins á lokasprettinum og freistaði þess að ná í þá tvo til þrjá sigra sem liðið þarf til þess að hanga uppi í deildinni,“ sagði Ágúst Þór fyrir stundu í samtali við mbl.is.

SönderjyskE hefur ekki vegnað vel í dönsku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð og aðeins unnið tvo af átján leikjum sínum. Sem stendur situr það í neðsta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar þegar fjórar umferðir eru eftir. SönderjyskE er tveimur stigum á eftir Nykøbing Falster HK og þremur á eftir Ringkøbing Håndbold. Eitt lið fellur úr deildinni í vor niður í B-deildina.

Ágúst Þór tók við þjálfun SönderjyskE á síðasta sumri og skrifaði þá undir eins árs samning. „Það varð mikil breyting á leikmannahópnum fyrir þetta keppnistímabil. Níu leikmenn fóru annað. Ekki komu eins margir leikmenn í staðinn auk þess sem örvhenta skyttan okkar meiddist snemma á keppnistímabilinu og síðan fékk Stella Sigurðardóttir þungt höfuðhögg í nóvember og annað í desember og hefur ekkert leikið með okkur síðan,“ segir Ágúst Þór sem nú fer að pakka saman föggum sínum.

„Við stefnum bara á að flytja á ný heim til Íslands. Þar ætla ég að halda áfram að þjálfa,“ segir Ágúst sem áfram verður landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik en hann er með samning við HSÍ fram á mitt næsta ár.

„Auðvitað eru það mikil vonbrigði að þetta skuli ekki hafa gengið upp. En svona er boltinn. Hann er ekki alltaf dans á rósum,“ segir Ágúst Þór Jóhannsson handknattleiksþjálfari.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert