Kristinn féll með Volda

Kristinn Guðmundsson, þjálfari Volda í Noregi.
Kristinn Guðmundsson, þjálfari Volda í Noregi. mbl.is/Eva Björk

Norska handboltaliðið Volda sem leikur í vetur í 1. deild kvenna í Noregi, næstefstu deild, undir stjórn Kristins Guðmundssonar féll í gær niður í 2. deild.

Volda vann reyndar Bækkelaget í gær, 23:21 í næstsíðustu umferð deildarinnar, en á sama tíma hafði Fana betur gegn Gjerpen, 26:25 og Rælingen hafði burstað Gjövik 32:22 í sínum leik á miðvikudag. Volda var í baráttu við Rælingen og Fana um að halda sér uppi í deildinni, en fyrir lokaumferðina er ljóst að þó Volda geti enn náð Rælingen og Fana að stigum þá eru innbyrðis viðureignir liðanna Volda í óhag og Volda því fallið um deild.

Kristinn tók við Volda síðasta sumar af Alfreð Finnssyni sem réði sig sem þjálfara Storhamar í efstu deild Noregs.

14 lið léku í 1. deildinni í Noregi í vetur, en fjögur neðstu liðin falla, meðan aðeins tvö lið koma upp úr 2. deild þar sem ákveðið var að fækka liðum úr 14 í 12 í 1. deild á næstu leiktíð. Volda er í 11. sæti eða í fjórða neðsta sætinu og er því fallið.

Liðin tvö sem komast upp í 1. deild og leika þar á næstu leiktíð verða Randesund og Molde. Síðar nefnda liðið leikur undir stjórn Einars Jónssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert