Stórbrotinn leikur og sigur hjá Löwen

Alexander Petersson var öflugur í kvöld.
Alexander Petersson var öflugur í kvöld. EPA

Rhein-Neckar Löwen, liðið sem Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfar, tók Spánarmeistara Barcelona í kennslustund í handknattleik í SAP-íþróttahöllinni í Mannheim í dag í fyrri viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Löwen var átta mörkum yfir í hálfleik, 22:14, og náði mest ellefu marka forskoti í síðari hálfleik. Lokatölur, 38:31 

Barcelona hefur haft yfirburði í spænsku deildinni í vetur og ekki átti í miklum vandræðum með marga andstæðinga sína í Meistaradeildinni á þessu keppnistímabili enda er valinn maður í hverju rúmu.

Leikmenn Löwen komu frábærlega vel undirbúnir og einbeittir til leiks og tóku leikinn strax í sínar hendur. Vörnin var frábær auk þess sem Niklas Landin var sterkur í markinu. Sóknarleikurinn var framúrskarandi þar sem vörn Barcelona var opnuð hvað eftir annað svo leikmenn liðsins vissu vart hvernig á sig stóð veðrið.  Leikurinn var einstaklega vel útfærður og ljóst að Guðmundur Þórður, þjálfari, hefur legið yfir veikleikum Barcelona-liðsins og komið réttum skilaboðum í hendur sinna leikmanna.

„Einn besti handboltaleikur sögunnar," sagði þýski handknattleiksmaðurinn Stefan Kretzschmar á twitter eftir leikinn í kvöld. „Guðmundur Guðmundsson er hinn leikfræðilegi snillingur," sagði Tom Brannagáin, sem lýsti leiknum í sjónvarpi Handknattleikssambandi Evrópu. Hann sagði ennfremur aldrei hafa séð lið Barcelona hafa verið svo sundurspilað eins og að þessu sinni og hann hefði aldrei reiknað með sjá það gerast. 

Uwe Gensheimer skoraði 14 mörk fyrir Löwen úr 16 skotum. Bjarte Myrhol skoraði sex mörk og fiskaði mörg vítaköst. Alexander Petersson skoraði fjögur mörk fyrir Löwen og lék allan leikinn frá upphafi til enda. Stefán Rafn Sigurmannsson kom hinsvegar ekkert við sögu. 

Kiril Lazarov var markahæstur leikmanna Barcelona með 10 mörk, flest úr vítaköstum. 

Seinni leikur liðanna fer fram í Barcelona á næsta laugardag. Þá verður fróðlegt að sjá hvort leikmönnum Barcelona tekst að svara fyrir sig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert