Löwen áfram efst og taplaust

Alexander Petersson skoraði sex mörk fyrir Löwen í dag í …
Alexander Petersson skoraði sex mörk fyrir Löwen í dag í stórum sigri á HC Erlangen. Ljósmynd/RN Löwen

Rhein-Neckar Löwen, sem landsliðsmennirnir Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson leika með, er áfram efst og taplaust í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Löwen vann í dag nýliða HC Erlangen, 35:18, á heimavelli þegar þriðja umferð deildarinnar var leikin.

Alexander skoraði sex mörk fyrir Löwen og Stefán Rafn tvö, þar af eitt út vítakasti. Sigurbergur Sveinsson var markahæstur hjá Erlangen með fimm mörk.

Erlangen rekur lestina í deildinni án stiga ásamt tveimur liðum til viðbótar. 

Meistaraliðið Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, lenti í kröppum dansi gegn HSV Hamburg á útivelli en náði að merja fram sigur á elleftu stundu, 20:19, fyrir hreinan klaufaskap heimaliðsins. Kiel hafði fimm marka forskot snemma í síðari hálfleik, 13:8, og virtist ætla að vinna öruggan sigur. Annað kom á daginn. Johannes Bitter, markvörður HSV, lokaði markinu og smátt og smátt minnkaði forskotið. Heimamenn jöfnuðu metin, 17:17 og aftur 18:18, en misráðin ákvörðun í sókn einni mínútu fyrir leikslok varð þess valdandi að Kiel komst í tveggja marka forystu, 20:18. Þar með var sigurinn í höfn þótt heimamenn skoruðu síðasta markið 15 sekúndum fyrir leikslok. 

Aron Pálmarsson skoraði eitt mark fyrir Kiel en lagði upp nokkur og átti fínan leik. Marko Vujin var markahæstur hjá Kiel með sjö mörk. Kiel hefur nú fjögur stig eftir tvo sigurleiki í röð.

Ólafur Guðmundsson skoraði þrjú mörk fyrir Burgdorf þegar liðið vann Lübbecke, 35:28, á heimavelli. Burgdorf er um miðjan deild með þrjú stig. Rúnar Kárason lék ekki með Burgdorf vegna meiðsla en hann er að jafna sig eftir að hafa slitið krossband í mars. 

Geir Sveinsson og lærisveinar hans í Magdeburg unnu Bergischer á erfiðum útivelli þeirra síðarnefndu. Arnór Þór Gunnarsson skoraði þrjú af mörkum Bergischer og Björgvin Páll Gústavsson stóð í marki liðsins. Magdeburg er í sjöunda sæti deildarinnar með fjögur stig en Bergischer er með tvö stig í neðri hluta deildarinnar. 

Gunnar Steinn Jónsson var ekki á meðal markaskorara hjá Gummersbach þegar liðið vann nýliða Friesenheim á heimavelli, 30:24. Gummersbach er í þriðja sæti með fimm stig eftir þrjá leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert