„Ekki auðveld ákvörðun“

Ólafur Stefánsson.
Ólafur Stefánsson. mbl.is/Golli

Aðeins sex dögum áður en Íslandsmótið í handbolta hefst barst tilkynning frá Val í gær um að Ólafur Stefánsson myndi ekki stýra liði félagsins í Olís-deild karla í handbolta til áramóta, vegna anna við störf í nýlega stofnuðu fyrirtæki sínu. Óskar Bjarni Óskarsson og Jón Kristjánsson verða þjálfarar Vals í fjarveru Ólafs.

„Ég er í verkefni hjá fyrirtæki sem ég er með og ég var bara farinn að finna að þetta var orðið of mikið saman. Ég tók bara þá ákvörðun í stað þess að reyna að halda einhvern sjó sem ég gat ekki haldið að reyna að einbeita mér að öðru í bili. Þess vegna var þessi ákvörðun tekin. Hún var langt því frá að vera eitthvað auðveld. En hún er held ég rétt,“ sagði Ólafur Stefánsson við Morgunblaðið í gær.

Óskar Bjarni hefur verið með Ólafi við þjálfun Vals í sumar, og þekkir vel til, enda margsinnis stýrt liðinu, og þá er Jón Kristjánsson einnig fyrrverandi þjálfari Vals, og báðir hafa Óskar Bjarni og Jón skilað mörgum titlum í safn félagsins.

„Það er svona planið að ég komi samt inn aftur um áramótin af fullum krafti í þjálfunina hjá Val. En við sjáum bara til hvernig þetta þróast, bæði hjá mér og hjá liðinu. Við setjumst bara niður í janúar,“ sagði Ólafur sem verður áfram viðloðandi liðið, þó hann stýri ekki æfingum eða liðinu í leikjum í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert