„Alltaf pressa á að vinna titla“

Matthías Árni Ingimarsson er fyrirliði Hauka í Olís-deild karla í …
Matthías Árni Ingimarsson er fyrirliði Hauka í Olís-deild karla í handbolta. mbl.is/Golli

„Það er náttúrlega alltaf pressa hjá okkur Haukamönnum á að taka titla. Það verður engin breyting á því í vetur. Það hefur verið þannig í áraraðir. En mér líst mjög vel á veturinn og mér sýnist á öllu að þetta geti orðið mjög þétt og spennandi deild. Þetta gæti verið deild í vetur þar sem allir geta unnið alla,“ sagði Matthías Árni Ingimarsson, fyrirliði Hauka í Olís-deild karla í handbolta, þegar mbl.is ræddi við hann í gær.

Sérstök umfjöllun er í íþróttablaði Morgunblaðsins þessa dagana um liðin í Olís-deild karla í handbolta og í dag er fjallað um Hauka og ÍBV.

„Auðvitað finnum við fyrir breytingum á leikmannahópnum milli tímabila. Það eru flottir strákar og handboltamenn sem fóru frá okkur í sumar og eru komnir í önnur spennandi verkefni. En við höfum verið með breiðan hóp, sem þjálfararnir hafa verið duglegir að nota. Þannig að yngri leikmenn hafa kannski verið að fá tækifæri fyrr en áður hefur gerst og eru með reynslu þegar þeir taka svo við stærri hlutverkum í liðinu. Það er auðvitað frábært, að þeir séu komnir með þá reynslu, þó þetta ungir. En við höfum líka fengið flottar viðbætur í sumar. Þannig að þetta verður bara breiður og ungur hópur sem gaman verður að spila með í vetur,“ sagði Matthías.

Sigurbergur Sveinsson fór frá Haukum í sumar til Erlangen í Þýskalandi, Elías Már Halldórsson til Akureyrar og Þórður Rafn Guðmundsson til Fjellhammer í Noregi. Í staðinn hafa Haukar fengið Janus Daða Smárason frá Árósum í Danmörku, Heimi Óla Heimisson frá GUIF í Svíþjóð og Vilhjálm Geir Hauksson frá Gróttu.

Hraðmótið í lokin reynst erfitt

Haukum er spáð 2. sæti í Olís-deildinni í vetur af þjálfurum, fyrirliðum og forráðamönnum deildarinnar, en Haukar hafa orðið deildarmeistarar síðustu þrjú ár. „Okkur var heldur ekki spáð deildarmeistaratitlinum í fyrra. Auðvitað pælir maður aðeins í þessum spám, en þetta er meira til gamans gert og hefur ekki mikil áhrif á mann.“

Þó Haukar hafi orðið deildarmeistarar síðustu ár, hefur Haukum ekki tekist að verða Íslandsmeistari síðan 2010. „Það er þetta hraðmót í lokin sem hefur farið með okkur síðustu árin. En þetta var sérstaklega svekkjandi á síðustu leiktíð að tapa með einu marki í oddaleik í úrslitum fyrir framan troðfullt hús á Ásvelli í þvílíkri stemningu. Það voru út af fyrir sig samt forréttindi að upplifa þessa úrslitakeppni í fyrra,“ sagði Matthías.

Löng bið eftir því að Íslandsmótið hefjist

„Við höfum æft vel í sumar eins og auðvitað hin liðin. Menn hafa lyft vel og verið í því að byggja sig upp. En við höfum verið duglegir við að spila æfingaleiki. Patti [Patrekur Jóhannesson þjálfari] er mjög duglegur í því að halda mönnum í bolta. Það hefur líka verið þannig á æfingum í sumar. Það hefur alltaf verið einhver taktík og bolti. Menn missa það ekkert niður. En þó við höfum spilað marga æfingaleiki, í Meistarakeppni HSÍ og svo tvo Evrópuleiki, þá hefur maður beðið eftir því að Íslandsmótið hefjist, alveg frá því síðasta tímabil kláraðist. Það verður bara gaman að komast á gólfið aftur og fá smá klístur á puttana.“

Matthías hefur fyrst og fremst látið til sín taka í vörn Hauka síðustu ár, en hefur þó fengið að spila eina og eina sókn, þá mest á línunni. Hann gerir þó ekki ráð fyrir því að spila mikið í sókninni í vetur. „Það yrði þá bara fyrst og fremst til að hvíla einhverja menn. Hvort það eru einhverjar mínútur í leik, engar mínútur, eða bara að vera til staðar ef liðið þarf á manni að halda er bara orðið hlutverk manns í liðinu. Maður pælir ekkert í því svosem. Þetta er liðsíþrótt og við vinnum saman sem lið,“ sagði Matthías Árni Ingimarsson, fyrirliði Hauka, við mbl.is.

Umfjöllun um Hauka má svo finna í fjögurra síðna íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Matthías Árni Ingimarsson fyrirliði Hauka lyftir bikarnum í vor sem …
Matthías Árni Ingimarsson fyrirliði Hauka lyftir bikarnum í vor sem Haukar fengu þegar þeir urðu deildarmeistarar. mbl.is/Ómar
Haukamaðurinn Árni Steinn Steinþórsson skýtur að marki ÍBV í vor.
Haukamaðurinn Árni Steinn Steinþórsson skýtur að marki ÍBV í vor. mbl.is/Eggert
Patrekur Jóhannesson er þjálfari Hauka.
Patrekur Jóhannesson er þjálfari Hauka. Morgunblaðið/Eva Björk
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert