Heiðar Þór: ,,Hann er hraður og dvergvaxinn“

Heiðar Þór Aðalsteinsson í skotfæri í leiknum við Stjörnuna í …
Heiðar Þór Aðalsteinsson í skotfæri í leiknum við Stjörnuna í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Heiðar Þór Aðalsteinsson er einn af þeim sem spilað hafa hvað lengst með liði Akureyrar í handboltanum. Hann hefur verið inn og út úr liðinu síðustu ár og spilaði nú heilan leik í fyrsta skipti í langan tíma. Hornamaðurinn fór hreint hamförum og skoraði mörk í öllum regnbogans litum. Á endanum komst hann í níu mörk en félagi hans, Sigþór Árni Heimisson, gerði enn betur og skoraði ellefu.

Hvað fannst Heiðari Þór um leikinn? ,,Við vorum í basli lengi vel og vorum að gera barnaleg mistök í vörninni allan fyrri hálfleikinn. Við þéttum okkur svo og náðum að stoppa í götin og smám saman kom þetta hjá okkur. Ég held að það hafi bara verið stress í okkur. Þetta var fyrsti heimaleikurinn og Höllin full af áhorfendum, sem bjuggust örugglega við miklu af okkur. Við hristum þetta af okkur á endanum og fórum að spila eins og menn, en þetta var erfið fæðing. Jú, ég er ánægður með minn leik en það voru skot sem ég hefði viljað setja í markið. Sissi (Sigþór Árni) var náttúrulega frábær og ég held að hann sé núna loksins að springa almennilega út. Menn hafa verið að bíða dálítið eftir því. Hann er svo fáránlega hraður að það stoppar hann enginn. Ótrúlegt hvað hann er hraður þrátt fyrir að vera dvergvaxinn“ mælti Heiðar Þór og tók skýrt fram að þessi síðustu ummæli hans yrðu að koma fram á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert