Guðjón Valur: Ég vissi aldrei af markverðinum

Guðjón Valur Sigurðsson skorar eitt af mörkum sínum.
Guðjón Valur Sigurðsson skorar eitt af mörkum sínum. mbl.is/ómar

Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson slapp vel þegar markvörður Ísraela keyrði í bakið á honum þegar Guðjón var að taka á móti hraðaupphlaupssendingu undir lok fyrri hálfleiks í leik Íslands og Ísrael í undankeppni EM í Höllinni í kvöld. Sá ísraelski fékk réttilega rauða spjaldið en fyrir utan höggið og byltu á gólfinu slapp Guðjón furðu vel frá atvikinu. 

Mbl.is spurði Guðjón að leiknum loknum hvort hann hafi ekki verið heppinn að sleppa ómeiddur frá þessu árekstri sem leit ekki of vel út úr aðstöðu blaðamanna á hliðarlínunni. „Ég veit það eiginlega ekki og þú getur dæmt það betur vegna þess að ég sá hann aldrei. Ég fann bara fyrir árekstrinum. Ég var allan tímann að horfa á boltann og hoppaði upp í hann. Ég varð auðvitað hundfúll, aðallega vegna þess að mér brá svo svakalega. Ég vissi aldrei af honum en þetta gerðist og enginn meiddist. Almennt séð þá verður maður að höfða til skynsemi markvarða að koma sér í burtu í aðstæðum eins og þessum. Þetta er mjög hættulegt, ekki bara fyrir mig heldur einnig markvörðinn sjálfan og í þessu tilviki var varnarmaður að hlaupa með mér sem hefði getað slasast. Það hefur gerst að menn hafi lent í svona samstuði og steinrotast, eða jafnvel gleypt í sér tunguna og þurft hefur að kalla þá aftur til lífsins. Málið er að markverðirnir sjá allan völlinn og allt sem er að gerast. Maður treystir því að þeir séu það skynsamir að þeir hlaupi í burtu,“ útskýrði Guðjón Valur og bætti því við að ekki er einfalt mál að banna markvörðum að fara út úr vítateignum meðal annars þar sem við og við er brugðið á það ráð að taka markverði út af og setja útileikmenn inn á í vesti í þeirra stað.

„Vandamálið er að ef markvörðum er bannað að fara út úr teignum, þá þarf að taka vestið út úr handboltanum líka. Ég vil persónulega hafa þá inni í teig út af þessari hættu en þá gætu þeir ekki einu sinni farið út á hliðarlínu og fengið sér vatn. Þetta er haltu mér, slepptu mér dæmi,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson við mbl.is í kvöld en hann var markahæstur í íslenska liðinu með 9 mörk á þeim 40 mínútum sem hann var inná. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert