„Mamma og pabbi eru glaðari en ég“

Þórey Anna Ásgeirsdóttir.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir. Ljósmynd/rhk.info

„Þetta er draumur sem rættist,“ segir hin 17 ára gamla Þórey Anna Ásgeirsdóttir í viðtali við norska blaðið Glomdalen en hún er ein af nýliðunum í íslenska kvennalandsliðinu í handknattleik sem mætir Ítalíu og Makedóníu í forkeppni HM.

„Þetta er frábært og ég hef fengið hamingjuóskir að heiman. Ég held að mamma og pabbi séu glaðari en ég,“ segir Þórey Anna sem leikur með norska liðinu Rælingen en val á henni í íslenska landsliðið hefur vakið athygli í Noregi og hefur norska sjónvarpsstöðin TV2 meðal annars óskað eftir viðtali við Þóreyju. Lið úr norsku úrvalsdeildinni hafa sýnt henni áhuga en hún leikur eins og áður segir með Rælingen í B-deildinni.

„Það hefur verið markmið mitt frá því ég byrjaði að spila handbolta sjö ára gömul að komast í landsliðið en ég átti ekki von á því að það myndi gerast svona fljótt,“ segir Þórey Anna sem hefur spilað með yngri landsliðunum Íslands.

Þórey Anna æfir og stundar nám við bestu íþróttaakademíu Norðmanna sem er í Kongsvinger. Þar er hún undir handleiðslu Hrafnkels Halldórssonar og spilaði líka undir hans stjórn með Grue/KIL í norsku C-deildinni á síðustu leiktíð. Hann er ekki hissa á vali Þóreyjar í landsliðið.

„Þórey er ein af þeim efnilegustu ef ekki sú efnilegasta á Íslandi. Hún er viljug og leggur sig alla í íþróttina. Það verður dýrmæt reynsla fyrir hana að vera í hópnum og þetta er rós í hnappagat okkar sem starfa við íþróttakademíuna,“ segir Hrafnkell.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert