Lærisveinar Arons enn taplausir

Aron Kristjánsson þjálfari KIF Kolding.
Aron Kristjánsson þjálfari KIF Kolding. mbl.is/Eva Björk

KIF Kolding, undir stjórn landsliðsþjálfarans Arons Kristjánssonar, er enn taplaust í Meistaradeild Evrópu í handknattleik eftir jafntefli gegn Wisla Plock frá Póllandi, 30:30, í dramatískum leik í Danmörku í dag.

Það eru aðeins tíu dagar síðan liðin mættust síðast og þá vann KIF Kolding sætan sigur í Póllandi, 29:28. Leikurinn í dag var ekki síður spennandi. KIF Kolding komst í 30:29 þegar skammt var eftir en gestirnir jöfnuðu metin þegar 40 sekúndur voru eftir. Aron tók þá leikhlé en lokasókn heimamanna gekk ekki sem skyldi enda gerðu gestirnir sitt allra besta til að brjóta hana niður. Þeir misstu til að mynda Adam Wisniewski af velli með rautt spjald. KIF Kolding fékk aukakast þegar ein sekúnda var eftir en tókst ekki að nýta það.

Dönsku meistararnir eru á toppi B-riðils með 10 stig en Barcelona á leik til góða við Flensburg sem nú stendur yfir, og er með 9 stig.

Alexander Petersson skoraði eitt marka Rhein-Neckar Löwen sem tapaði fyrir Celje Lasko á útivelli, 32:28, í C-riðli. Stefán Rafn Sigurmannsson komst ekki á blað. Löwen er með 6 stig eftir 6 leiki en Celje 4. Veszprém er á toppnum með 12 stig.

Kielce er enn með fullt hús stiga á toppi D-riðils eftir að hafa unnið Aalborg 33:26 í dag. Ólafur Gústafsson lék í vörn Aalborg sem er í 3. sæti með 5 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert