Ótrúleg endurkoma ÍBV í Garðabæ

Theodór Sigurbjörnsson í baráttu við Hrannar Braga Eyjólfsson í leiknum …
Theodór Sigurbjörnsson í baráttu við Hrannar Braga Eyjólfsson í leiknum í dag. mbl.is/Árni Sæberg.

ÍBV vann ótrúlegan sigur á Stjörnunni þegar liðin mættust í Olís-deild karla í handbolta í dag. Eyjamenn skoruðu einungis sjö mörk í fyrri hálfleik og voru sex mörkum undir að honum loknum, en uppskáru hins vegar sigur, 22:21 eftir háspennu.

Fyrstu mínútur leiksins gáfu tóninn fyrir hvernig fyrri hálfleikurinn yrði. Eyjamenn missti boltann klaufalega frá sér í sífellu og Stjarnan skoraði fimm fyrstu mörk leiksins. ÍBV tók leikhlé strax eftir fimm mínútna leik, en það virtist ekki duga til að skerpa sóknarleikinn, sem var hreint út sagt arfaslakur í fyrri hálfleik.

Stjörnumenn spiluðu hins vegar agaðan leik bæði í sókn og vörn og höfðu sanngjarna sex marka forystu í hálfleik, 13:7, sem undirstrikar sóknarvandræði Eyjamanna í fyrri hálfleik.

Eftir hlé reyndu Eyjamenn hvað þeir gátu og virtust mun einbeittari. Þeir söxuðu jafnt og þétt á forskot Stjörnumanna sem virtust stressast nokkuð við viðsnúninginn, en þegar tíu mínútur voru eftir var munurinn kominn niður í eitt mark.

Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem Eyjamenn komust yfir í fyrsta sinn þegar rúm mínúta var eftir af leiknum. Þeir héldu haus þar til lokaflautið gall, lokatölur 22:21. Stjarnan er því enn í fallsæti með tíu stig en ÍBV hefur nú fimmtán stig.

Theodór Sigurbjörnsson var markahæstur Eyjamanna með sjö mörk en hjá Stjörnunni skoraði Starri Friðriksson sex mörk.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í átta síðna íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í dag.

Stjarnan 21:22 ÍBV opna loka
60. mín. Andri Heimir Friðriksson (ÍBV) fiskar víti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert